Það skemmtilega við leiklist er að maður hættir aldrei að læra

Það skemmtilega við leiklist er að maður hættir aldrei að læra

Íris Huld Guðmundsdóttir

Það skemmtilega við leiklist er að maður hættir aldrei að læra

Jóel Sæmundsson leikari hefur verið áberandi á skjám landsmanna uppá síðkastið. Hann fór með stórt hlutverk í íslensku þáttaröðinni Ráðherrann sem sýndir voru nýlega á Rúv. Einnig fór hann með hlutverk Magga í kvikmyndinni Vesalings elskendur, kvikmynd í framleiðslu LittleBig production, leikstýrð af svíanum Maximilian Hult.

Sú mynd hlaut þrjár Eddu tilnefningar í ár, en Jóel var útnefndur fyrir hlutverk sitt sem leikari í aukahlutverki. Hann setti líka upp og lék einleikinn Hellisbúann, sem sló svo rækilega í geng að sýningin var sett upp í Las Vegas 2018. Fór með hlutverk í Hallmark myndinni Love on Iceland sem var sýnd í Bandaríkjunum fyrir stuttu síðan og á Stöð 2.

Síðast en alls ekki síðst þá hefur hann farið listavel með hlutverk “James Bond” iðnaðarmanna í auglýsingum Húsasmiðjunar, sem passar vel við núna enda stendur hann í bullandi framkvæmdum þessa dagana.  Þetta er svona brot af þeim hlutverkum sem Jóel hefur tekið að sér í gengum tíðina. En hann tekur sig alls ekki of hátíðlega og stutt í grínið.

Jóel er í úlpu frá ZO•ON á myndunum sem voru teknar í garði Einars Jónssonar.

Við fengum Jóel til að svara nokkrum spurningum fyrir okkur og byrjuðum á því að spyrja:

Hver er Jóel?
“Ég er bara ég, það er svo margt og flókið, en samt svo einfalt. Ég er leikari, faðir og sonur, ekki endilega í þessari röð. Kem frá stórborginni Þórshöfn Langanesi. Charles bukowski og Alan Watts eru mínir andlegir sálubræður.”

Jóel útskrifaðist með BA í leiklist frá Rose Bruford árið 2009 sem státar sig m.a. af leikurum eins og Gary Oldman. “Ég er ennþá að læra og það er nú það skemmtilega við leiklist er að maður hættir aldrei læra.

Ég er leikari, faðir og sonur, ekki endilega í þessari röð. Kem frá stórborginni Þórshöfn Langanesi. Charles bukowski og Alan Watts eru mínir andlegir sálubræður.”

En hvar höfum við einna helst séð þig?
“Kannski bara í búðinni? Annars kláraði ég að sýna Hellisbúann 2019 og núna voru að klárast sýningar á Ráðherranum.”

Hvar munum við sjá þig?
“Vonandi mætir þú á sýningar og eða horfir á eitthvað skemtilegt sem ég hef verið að leika í. Annars er það bara búðinn sko.”

Eins og kemur fram þá er Jóel í framkvæmdum þessa dagana en hann er að taka í gegn hús sem hann keypti sér rétt fyrir utan Reykjavík. “Ég er á fullu í húsaframkvæmdum að reyna gera eitthvað fínt. Eins er ég að bíða eftir því að maður megi fara vinna aftur við að skemmta fólki, svo er ég að æfa verk sem planað er að sýna í lok febrúar (það átti vera í október en hey það frestaðist) svo er ég líka reyna skrifa nýjan einleik sem mig langar henda upp 2021. Fínt henda þessu út til setja “skrifi-pressu” á mann.”

Framtíðarplönin?
“Halda áfram að lifa mínu lífi, ná markmiðum og elta drauma og jú svo ætla ég fá mér borða líka.”

En svona af því að það er kóvid og við erum föst á eyju þá er ein spurning að lokum. Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og farið hvert í heimi sem er, hvert myndir þú fara og hvern myndir þú taka með þér?
“Svo margir staðir, en ég myndi annarsvegar fara til Grænlands og taka föður minn með og láta mömmu bara til systra minna á meðan, segir hann og hlær. Eða skemmtisigling með krökkunum mínum, eða til Sviss að renna okkur.”

Við óskum Jóel góðs gengis og hlökkum til að fylgjast með honum í leiklistinni.

Lilý Erla „Lover of unexpected magic”

Lilý Erla „Lover of unexpected magic”

Lilý Erla „Lover of unexpected magic”

Lilý Erla Adamsdóttir er ung listakona sem Innlit hefur tekið eftir á samfélagsmiðlunum fyrir lifandi og skemmtilegar sögur. Skapandi heimur hennar og skemmtilegt stúss birtist áhorfendum. En oftar en ekki sýnir hún frá listsköpun á vinnustofunni og skapandi stundum með börnunum við eldhúsborðið heima. Girnilegum brauðum bregður fyrir ásamt fallegum heimilislegum smáatriðum. Lilý finnur listinni farveg á fjölbreyttan hátt í textíl, málverki og ljóðum, en hún hefur gefið út tvær ljóðabækur. Kvöldsólarhana og Biðu sem báðar eiga það sameiginlegt að vera kraumandi flaumur orða sem kastar lesandanum til. Lífið og listin leiðast hönd í hönd, enda er Lilý yfirlýstur „Lover of unexpected magic.”

Það má segja að verk Lilýjar Erlu dansi á mörkum myndlistar og hönnunar. Hún er textíl listakona og deildarstjóri Textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík. Eftir útskrift í myndlist frá Listaháskóla Íslands hélt hún til náms til Svíþjóðar þar sem hún lauk mastersprófi í listrænum textíl. Hefur hún verið að þróa sína tækni og myndlist frá námi.

Lilý Erla hefur hlotið athygli fyrir áhugaverða nálgun við viðfangsefnið en hún er m.a. nýbúin að opna einkasýninguna Skrúðgarður, í Listasafninu á Akureyri þar sem hún sýndi textílverk sín. Sú sýning stendur fram til 15. Ágúst 2021. Verk sýningarinnar eru mjög fjölbreytt hvað varðar útfærslu.

 Þar var hún með veggverk, verk á gólfi sem eru þá kannski komin í hlutverk skúlptúrsins og verk á þaki safnsins. Tvo verkanna eru gosbrunnar. Verk eftir hana hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og erlendis. Verk eftir hana er að finna meðal annars á yfirstandandi sýningu á Listasafni Íslands, Listþráðum. En Lilý er að opna sýningu í nýrri sýningarröð Listvals í samstarfi við Norr11 nú í byrjun nóvember.

Sem fyrr segir hefur Lilý fundið farveg fyrir listsköpun sína á fjölbreyttan hátt. Eitt af því sem hún hefur verið að gera undanfarið eru mjög heillandi, falleg og húmorísk veggverk, einskonar handmáluð veggfóður. Í fyrstu virðist sem veggirnir séu veggfóðraðir á hefðbundinn hátt, en þegar betur er að gáð er allur veggurinn handmálaður af natni og alúð.

Hér að neðan eru verk úr smiðju Lilýjar Erlu. Textílverkin hennar eru af ýmsum stærðum og umfangi, og veggverkin gjarnan sérsniðin að hverju rými fyrir sig. Þau sem vilja fjárfesta í list eftir unga, hæfileikaríka og innblásna listakonu geta skoðað úrvalið á heimasíðu og samfélagsmiðla síðum hennar. En linka á þessar síður er að finna neðst í greininni.

 

 


Aðalmynd með grein, sem og sú neðsta eru teknar af Sögu Sigurðardóttur. Myndin af Lily Erlu sem tekin er á sýningu Listasafns Akureyrar er tekin af Helgu Birgisdóttur og mynd(ir) af veggverki eru teknar af Kristínu Helgu Schiöth. Myndirnar eru í eigu listakonunnar og birtar með hennar leyfi.

 

Á sýningunni á Listasafninu á Akureyri

Gosbrunnur á sýningu í Listasafni Akureyrar

Loðið og mjúkt

Hér er dæmi um handmálað veggfóður að hætti Lilyar Erlu

Lily Erla í sínu náttúrulega umhverfi umlukin litríkum þráðum og list á vinnustofunni

Árlegur listmarkaður Prent og vina í Ásmundarsal opnar 5. desember

Árlegur listmarkaður Prent og vina í Ásmundarsal opnar 5. desember

Árlegur listmarkaður Prent og vina í Ásmundarsal opnar 5. desember

Laugardaginn 5. desember kl.10:00 opnar jólasýningin „Gleðileg jól!” í Ásmundarsal en veg og vanda af verkefninu eiga þeir félagar í Prent og vinir þeir Sigurður Atli Sigurðsson og Leifur Ýmir Eyjólfsson í samstarfi við Ásmundarsal. Gleðileg jól! er sölusýning um 130 listamanna og sú þriðja í röðinni en áður hafa verið haldnar sýningarnar „Le Grand Salon de Noël” árið 2018 og „Ég hlakka svo til” árið 2019.

Verið er að endurvekja gamla hefð en sölusýningar voru haldnar fyrir jólin í Listvinasalnum á fimmta áratug síðustu aldar. Þá voru verk þekktustu listamanna þjóðarinnar sýnd samhliða verkum yngri og lítt þekktari listamanna.

Um 500 verk verða til sölu á sýningunni og hægt verður að pakka þeim beint í silkiþrykktan jólapappír á innpökkunarstöð Prents & vina sem sjá um sýningarstjórn.

Sýningin verðu opin á hverjum degi frá kl.10:00-18:00 fram að jólum, en vegna aðstæðna verður hleypt inn í hollum. 


Ljósmyndir: Owen Fiene. Myndirnar með færslunni eru fengnar af samfélagsmiðlasíðum aðstandenda viðburðarins og eru birtar með leyfi.

Opnun 2019. Eins og sjá má er kátt í höllinni á opnun og hefur framtakið notið mikilla vinsælda. Að þessu sinni verður þó hleypt inn í hollum vegna aðstæðna.

Mistilteinn er sígræn jurt sem er mikilvæg í jólahefðum margra landa. Eftir að mistilteinninn hefur verið hengdur upp má kyssa þann sem gengur undir hann. Fyrir hvern koss skal taka eitt hvítt ber af mistilteininum. Frá jólasýningunni 2019.

Svipmynd úr salnum frá sýningunni „Le Grand Salon De Noël”

Svipmynd úr salnum.

Verk á leið á vegginn en á sýningunni sýna og selja þekktustu listamenn landsins og ungir og óþekktari saman og er sýningin frábært tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á að fjárfesta í list að koma og skoða úrvalið og næla sér í brot af því besta srm er að gerast í íslenskri myndlist í dag.

Verk sem keypt eru á sýningunni er pakkað inn í jólapappír sem prentaður er á staðnum og hægt er að fá jólakort volgt úr prentpressu Prent & vina á pakkann.

Skemmtilegt sjónarhorn – listin er allsstaðar.

Samkvæmt hefðinni verður sett upp grafíkvinnustofa í Gryjunni en þar eru myndlistarmenn að störfum sem hefur verið boðið að vinna í einn dag hver, stundum tveir eða fleiri saman.

DAGSKRÁ grafíkverkstæðis 2020:
———
5-6 des | Ólafur Ólafsson og Libia Castro
7-8 des | Jóna Hlíf Halldórsdóttir
9-10 des | Sólbjört Vera Ómarsdóttir
11-12 des | Curver Thoroddsen
13-14 des | Claire Paugam
15-16 des | Björn Roth
17-18 des | Páll Haukur Björnsson
19-20 des | Finnur Arnar Arnarson
21-22 des | Steinunn Eldflaug Harðardóttir
23. des | Borghildur Óskarsdóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir

Á myndunum má sjá listamennina Hildigunni Birgisdóttur og Harald Jónsson vinna í Gryfjunni. Verk listamannana sem taka þátt fara svo á vegginn uppi í sýningarsalnum og eru til sýnis og sölu á sýningunni.
Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Í fallegu Sigvaldahúsi, raðhúsi frá sjötta áratugnum tekur María Pétursdóttir á móti blaðamanni og ljósmyndara Innlits. Við fáum okkur kaffi í eldhúsinu og biðjum Maríu að leysa frá skjóðunni varðandi fallegu peysurnar sem hún hefur verið að hanna og framleiða undir merkjum Maríuklæða undanfarin ár. Sagan er áhugaverð, í raun sigursaga þar sem erfiðiðum aðstæðum var breitt í ævintýri sem sér ekki fyrir endann á. Sagan er falleg og persónuleg. Það byrjaði með sjali úr Jakuxa ull sem Baddi, maðurinn hennar Maríu, keypti handa henni í Nepal. Hann fór þangað til að vera vitni í kosningum útlagastjórnar Tíbet í Nepal og sá þessi fallegu sjöl. María er með ofnæmi fyrir venjulegri ull en er líka oft kalt svo hann var að vona að hún myndi þola Jakuxa ullina, sem hún og gerði.

Sjalið var mikill happafengur og tók María sjalið varla af sér. Haustið eftir langaði hana í fallega peysu en fann enga vandaða peysu sem var ekki úr ull. Hún varð sér því úti um nýtt sjal frá Nepal og saumaði peysu úr því.

María hellir uppá kaffi handa blaðamanni.

Mamma Maríu er leikmynda- og búningahönnuðurinn Messíana Tómasdóttir og er María eiginlega alin upp við saumavélina og hefur alltaf saumað mikið af sínum eigin fötum. María hefur leitað í þekkingarbrunn mömmu sinnar og segir um hana: „Hún bókstaflega kann allt sem tengist hönnun og saumaskap og svo fáum við líka bara svo góðar hugmyndir þegar við vinnum saman.”

„Ég var á tímamótum í lífinu. Ég var búin að vera menntaskólakennari í 14 ár og elskaði vinnuna mína en var að glíma við heilsubrest og kennslan reyndist mér mjög erfið með veikindunum og ég var í veikindaleyfi. Ég fór að ganga í peysunni og alls konar konur voru að spyrja mig hvar ég hefði fengið hana og hvort ég væri til í að gera svona handa þeim.”

María er hér á uppáhalds staðnum sínum í stofunni, turkisbláa stólnum við gluggann.

Ein af bestu vinkonum hennar, sem er mikil smekkmanneskja að mati Maríu hafði þarna mikil áhrif og hvatti hana eindregið til að prófa að sauma nokkrar peysur og sjá hvað myndi gerast. María lagðist í rannsóknarvinnu og fann loksins lítið fjölskyldufyrirtæki í Nepal sem sérhæfir sig í fair-trade iðnaði kvenna, með öruggan vinnustað og vistvæna framleiðslu. María setti sig í samband við þau og úr varð að hún pantaði fimm sjöl og byrjaði að sauma peysur og ponsjó sem ruku út svo hún pantaði meira og boltinn fór að rúlla.

Þetta var í nóvember 2014. María bjó til Facebook síðu og nafnið kom alveg óvænt. „Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

„Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

Stofunni var breytt í vinnustofu og svo var notast við 50 ára gamla saumavél sem amma Maríu hafði átt og notaði til að sauma föt á börn og barnabörn. Svo kom mamma hennar með gamla overlock vél sem hún hafði keypt 20 árum áður en aldrei notað.

Fjölskyldan er síðan flutt í stærra húsnæði svo nú er María komin með vinnustofu heima og var Innliti boðið að kíkja inn í helgidóminn sem er uppfullur af fallegum litum og spennandi smáatriðum. Nú þarf María ekki lengur að færa til saumavélar til að borða kvöldmatinn.

„Næst gerðist það að ég komst yfir Bambus efni sem sem ég kolféll fyrir segir María „Það er allra þægilegasta efni sem ég hef klæðst og svo heldur það sér ótrúlega vel. Ég er enn að gera kjóla og peysur úr Bambus og svo handgeri ég mynstur í hverja og eina flík.” Því miður er ekki mikið til af því núna vegna ástandsins í tengslum við Covid en í gegnum tíðina hefur María þurft að fara til Bandaríkjanna til að kaupa gott Bambus efni. Varðandi Jakuxa ullina þá var hún svo heppin að ná stórri pöntun af sjölunum áður en Covid lamaði allt í Nepal og á því ennþá smá lager. Vegna erfiðs ástands þar liggur öll framleiðsla niðri.

„Einn af ávöxtum Maríuklæða er að ég hef eignast fallegt vinasamband við þessa yndislegu fjölskyldu sem ég kaupi sjölin af og við höfum verið í miklu sambandi. Í fyrra komst ég svo loksins sjálf til Nepal og það var ómetanlegt að hitta þetta frábæra fólk sem mér hefur þótt svo vænt um öll þessi ár.”

Það voru samt ekki Maríuklæði sem sendu Maríu í þessa Nepal ferð. Hún fór með átta vinkonum sínum í ferð sem þær hafði dreymt um í mörg ár.

„Ein okkar, hefur búið í Nepal með annan fótinn allt sitt líf og okkur hefur lengi langað að heimsækja hana. Hún skipulagði fyrir okkur ævintýraferð sem er gjörsamlega ógleymanleg og efni í heila bók. Að fá að hitta Ramesh vin minn og fjölskyldu hans var svo algjör bónus.”

Í ferðinni keypti María slatta af silkisaríum sem hana langar að gera eitthvað úr, Hún hefur ekki klárað þá rannsóknarvinnu, tilraunirnar halda áfram og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

María saumar hverja flík fyrir sig og hefur ekki leitað að samstarfsaðila varðandi sölu á fötunum. Oft koma bara  eitt eða tvö sjöl í sama mynstri og lit svo fjöldaframleiðsla er ekki inni í myndinni og allt er þetta að gerast í anda „slow” hreyfingarinnar sem er að verða sífellt vinsælli. Fólk kann vel við persónulega nálgun, að geta jafnvel rætt við þann sem framleiðir flíkina sem er hrein andstæða við fjöldaframleiðsluna sem er á allan hátt ópersónuleg og er að fara illa með umhverfið, ekki síst í þriðja heiminum þaðan sem María hefur þróað sín viðskiptasambönd. Það á því vel við að konur koma hreinlega á vinnustofuna, velja sér sjal sem María saumar svo úr í stærð og sniði sem þær velja.

María hefur verið að gera skartgripi meðfram fatahönnuninni. „Ég hef alltaf haft áhuga á skartgripagerð og gert mitt eigið skart en í fyrra fór ég að gera skart til að selja líka. Ég gerði aðallega það sem ég kalla fjölskylduhálsmen, sem samanstendur af einum geisla fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Ég gerði líka eyrnalokka, töskur og kraga.

Það hefur hentað vel undanfarna mánuði að geta hitt konur í gegnum vefmiðla og sumar hafa þannig skoðað og pantað án þess að koma til mín og fengið peysuna bara senda heim. Ég hef líka verið með gjafabréf sem hefur verið vinsæl jólagjöf.

En það sem mér finnst kannski skemmtilegast við þetta allt saman er hvað þetta litla ævintýri er persónulegt. Ég hef talað við nánast allar konurnar sem eiga Maríuklæði og þegar ég sauma flík veit ég alltaf hver mun fá hana. Mér finnst fátt skemmtilegra í dagsins önn en að hitta konu í Maríuklæðunum sínum.

 


Til að fá frekari upplýsingar um Maríuklæði má fara á Facebook og Instagram síður Maríuklæða en þar eru fjöldinn allur af myndum af peysunum, skartinu og öðru sem María hefur verið að hanna. Hægt er að hafa samband við Maríu til að kaupa flík eða gjafabréf í gegnum síðurnar. Sjá linka á samfélagsmiðla neðst á síðunni.

 


Vinnustofan er lítil en falleg með efnum, litum og áferðum frá fjarlægum stöðum en einnig eru þar munir sem tengjast fjölskyldusögu Maríu og sköpunarheimi hennar, svo sem saumavélar, saumabox, myndir og fleira.

Einblínir á heilbrigðan lífsstíl án öfga

Einblínir á heilbrigðan lífsstíl án öfga

Íris Huld Guðmundsdóttir

Einblínir á heilbrigðan lífsstíl án öfga

Írisi Huld Guðmundsdóttur er ýmislegt til lista lagt en auk þess að vera menntaður íþróttafræðingur þá útskrifaðist hún sem heilsumarkþjálfi frá Institute of Integrative Nutrition og stjórnendamarkþjálfi frá Opna háskólanum í Reykjavík. Íris Huld hefur verið með annan fótinn í líkamsræktargeiranum síðastliðin 20 ár.

Það má segja að hún hafi tekið allan skalann, áður fyrr var megin áherslan lögð á átaksnámskeið, styrk, þol og tölur á vigt. Í dag leiðbeinir hún fólki hvernig það á að takast betur á við streitu og aukið álag með öndunaræfingum, léttum teygjum og æfingum.

Íris Huld er í fullu starfi innan veggja Primal Iceland og starfar þar ásamt eiginmanni sínum Einari Carli sem er einn af stofnendum fyrirtækisins. Þar leiðir hún námskeiðið Sigrum streituna, ásamt því að bjóða upp á einkatíma í anda námskeiðsins og markþjálfun. Markþjálfunin er undir nafninu Lífsmark – Hugur & heilsa en Lífsmark stofnaði hún árið 2015 með það að markmiði að leiðbeina fólki við að finna gott jafnvægi í lífinu, tileinka sér og viðhalda nýjum venjum og síðast en ekki síst ná settum markmiðum.

Markþjálfunin og hugmyndafræðin á bak við Sigrum streituna fara vel saman. Þeir sem þjálfunina sækja eiga það allir sameiginlegt að vilja gera breytingar á sínu lífi. Flestir vita jafnframt hverju þarf að breyta til þess að öðlast bætta andlega- og líkamlega líðan. Vandinn er oft sá að erfitt er að vita hvar á að byrja og margir mikla fyrir sér fyrstu skrefin og þar kemur  Íris inn í myndina, með hvatningu og gagnlegum tólum og tækjum þegar þörf er á.

Gefum Írisi orðið.

„Ég hef alltaf haft unun af því að hreyfa mig og lengi vel taldi ég mig lifa afar heilsusamlegu lífi. En það var ekki fyrr en ég komst í kynni við heilsumarkþjálfun að ég áttaði mig á því að svo var ekki raunin. Vissulega voru margar heilsusamlegar venjur í minni daglegu rútínu en það var ansi margt sem ég þurfti að horfast í augu við og endurhugsa.

„Ég hef alltaf haft unun af því að hreyfa mig og lengi vel taldi ég mig lifa afar heilsusamlegu lífi. En það var ekki fyrr en ég komst í kynni við heilsumarkþjálfun að ég áttaði mig á því að svo var ekki raunin. Vissulega voru margar heilsusamlegar venjur í minni daglegu rútínu en það var ansi margt sem ég þurfti að horfast í augu við og endurhugsa.

Það má segja að ég hafi verið út úr stressuð týpa sem hvíldist illa, tók vinnuna með heim á koddann, æfði einhæft og átti í óheilbrigðu sambandi við mat. Í rauninni var ég föst í vítahring streitu og ójafnvægis. Í dag þegar ég lít til baka þá sé ég þetta mynstur mjög skýrt og greinilega. Það var ekki fyrr en ég fór að takast á við streituvalda í mínu lífi sem ég fór að finna fyrir auknu heilbrigði og betri líðan.“

Forsenda þess að upplifa heilbrigða sál í hraustum líkama krefst þess að hugað sé að mörgum þáttum lífsins. Mikilvægt er að stuðla að jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, huga að svefngæðum, streituvöldum, hreyfingu, næringu, andlegu hliðinni og síðast en ekki síst stuðla að jákvæðum samskiptum við sína nánustu. Allir þessir þættir haldast í hendur og krefjast stöðugrar vinnu og einbeitingar.

Við þurfum að huga vel að andlegri og líkamlegri líðan því heilsan er það dýrmætasta sem við eigum. Á hverjum degi höfum við val um hvernig við viljum haga okkar lífi. Veljum vel og höfum heilsu okkar og hamingju ávallt að leiðarljósi.“

Þessa daga finna lang flestir fyrir auknu álagi og eru margir hverjir leitandi leiða til þess að öðlast meiri ró og betri líðan.

Það sem Íris Huld ráðleggur fólki er að byrja hægt. „Við gleypum ekki fílinn í heilu lagi, við tökum einn bita í einu. Við þekkjum það flest að ætla okkur um of og missa svo tökin.“

Gott er að byrja á því að spyrja sig einfaldrar spurningar.

Hvaða skref get ég tekið strax í dag sem færir mig nær bættri líðan?

Skrefin þurfa alls ekki að vera stór til þess að þau hafi áhrif. Hins vegar skiptir miklu máli að stíga skrefin af staðfestu og koma nýjum venjum inn í daglega rútínu.

Mikilvægt er að þörfin fyrir breyttum og bættum lífsgæðum komi innan frá og að útkoman sé heillandi og eftirsóknarverð.

Það að taka lítil skref í einu og vinna litla sigra jafnt og þétt veitir manni sjálfstraust til þess að halda vegferðinni áfram.

Nokkur ráð til að draga úr streitu:

  • Búðu til tíma fyrir daglegar öndunar- og hugleiðsluæfingar
  • Gefðu þér tíma á hverjum degi í ró og næði
  • Hreyfðu þig daglega og nærðu líkamann vel
  • Fáðu orku úr náttúrunni
  • Skapaðu góða morgunrútínu
  • Hlustaðu á líkamann og hvíldu þig þegar þörf er á
  • Dragðu úr skjánotkun og taktu allar tilkynningar á pósthólfum og smáforritum
  • Róaðu taugakerfið með því að draga úr koffíni, sykri og áfengi
  • Skráðu niður verkefnalista dagsins og hafðu hann viðráðanlegan
  • Settu mörk og settu þig í fyrsta sætið

Sigrum streituna er 4 vikna námskeið sem hefur verið haldið við afar góðan orðstír síðustu misseri og þar eru að finna mörg góð verkfæri í baráttunni við streituna.

Markmið námskeiðsins er að auka meðvitund þátttakenda á áhrifum streitu á andlega og líkamlega heilsu. Auka skilning á því hvernig taugakerfið virkar og hvernig við getum með árangursríkum æfingum og ástundun stjórnað streituástandi líkamans, bætt svefngæði, líðan og endurheimt.

Á námskeiðinu læra þátttakendur m.a. öndun og æfingar sem:

  • draga úr streitu og kvíða
  • bæta líðan í stoðkerfi
  • bæta svefngæði
  • auka andlegt jafnvægi
  • draga úr vöðvaspennu
  • efla ónæmiskerfið

 

Hægt er að nálgast námskeiðið á rafrænu formi sem er tilvalið nú þegar stór hluti þjóðarinnar er heimavinnandi. Nánari upplýsingar um þjálfun Írisar Huldar er að finna á www.primal.is/streita og www.lifsmark.is næstu námskeið hefjast 11. og 12. janúar 2021.