“Útför á sólarströnd” í MUTT á Laugavegi-Sýning Almars Steins Atlasonar

Fyrir nokkrum árum strauk Almar úr meðferð og fór rakleiðis til eyjarinnar La Réunion í Indlandshafi og bjó þar í hálft ár. Þar var hann í sendibíl og fékkst við málverk, fegurð og sorg. Í því sem Almar lýsir sem brjálæðislegri tjáningarþrá og af yfirgengilegu skilningsleysi uðru verkin til.

Óreiða sem einkennir mörg verkanna við fyrstu sýn er vandlega uppbyggð og stærðfræðilega útreiknuð. Innri óreiða og brestir opinberast í verkunum með hráum krafti þar sem þau leitast við að sýna okkur óþægilega en fallega tilvist á heiðarlegan hátt. „Ég var að reyna að tjá upplifun af kaotískum heimi á skipulagðan máta. Það var mission-ið. Ég ætlaði að finna fagurfræðina sem er í hellamálverkum, barnateikningum og innblásnum ræðum þeirra sem hafa einungis yfirborðsþekkingu á umræðuefninu en hafa til að bera þess betra skap og eru jafnvel aðeins neðan í því. Svo strauk ég úr meðferð og flutti til Réunion. Þar, undir pálmatrjánum lærði ég að mála upp á nýtt. Mín skoðun er sú að við verðum fyrir svo tryllingslegum áhrifum og áreiti á hverjum degi að það sé enginn möguleiki að einu sinni gróf flokka það, hvað þá vinna úr því. En ég trúi á vinnu og mest trúi ég á erfiðisvinnu. Ef ég vinn og vinn og mála og mála allan daginn alla daga þá get ég kannski komist nálægt því að tjá einhver smá brot úr þeim tryllingslega innblæstri sem er fólginn, einfaldlega í því, að vera manneskja á lífi.“

Útför á sólarströnd vísar til þess að sjálfsmorðinginn jarðar sjálfan sig á hverjum degi, hundrað sinnum, í huganum.

“Af hverju að gera það einhversstaðar sem er svona kalt og glatað og dýrt að
kaupa vín? Af hverju ekki að halda glæsilega partý jarðarför sjálfum sér til heiðurs í þrjátíu
gráðu hita hvert kvöld? Ef þú reglulega endurfæðist í hverju málverki, hverju vatnsblönduðu
rommglasi, hverri nutella matskeið fyrir næringu, hverri nýrri sól og hverjum saltblautum vindling.
Þá er lífið bara löng jarðarför. Og ég hef ekki einu sinni almennilega jafnað mig á minni fyrstu
fæðingu,” segir Almar.

Almar Steinn Atlason útskrifaðist með BA í myndlist úr Listaháskóla Íslands 2018. Gjörningar hans hafa vakið athygli á undanförnum árum en mest hefur hann þó fengist við málverk. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis en þetta er önnur einkasýning hans þar sem hann sýnir málverk.

Sýning stendur nú yfir á verkum Almars í Gallery Mutt á Laugarvegi. Sýningin stendur til 16. maí næst komandi. Nánari upplýsingar er að finna í link fyrir neðan myndirnar sem vísar inná heimasíðu og samfélagsmiðla Gallery Mutt.

 
Share This