Lilý Erla „Lover of unexpected magic”

Lilý Erla Adamsdóttir er ung listakona sem Innlit hefur tekið eftir á samfélagsmiðlunum fyrir lifandi og skemmtilegar sögur. Skapandi heimur hennar og skemmtilegt stúss birtist áhorfendum. En oftar en ekki sýnir hún frá listsköpun á vinnustofunni og skapandi stundum með börnunum við eldhúsborðið heima. Girnilegum brauðum bregður fyrir ásamt fallegum heimilislegum smáatriðum. Lilý finnur listinni farveg á fjölbreyttan hátt í textíl, málverki og ljóðum, en hún hefur gefið út tvær ljóðabækur. Kvöldsólarhana og Biðu sem báðar eiga það sameiginlegt að vera kraumandi flaumur orða sem kastar lesandanum til. Lífið og listin leiðast hönd í hönd, enda er Lilý yfirlýstur „Lover of unexpected magic.”

Það má segja að verk Lilýjar Erlu dansi á mörkum myndlistar og hönnunar. Hún er textíl listakona og deildarstjóri Textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík. Eftir útskrift í myndlist frá Listaháskóla Íslands hélt hún til náms til Svíþjóðar þar sem hún lauk mastersprófi í listrænum textíl. Hefur hún verið að þróa sína tækni og myndlist frá námi.

Lilý Erla hefur hlotið athygli fyrir áhugaverða nálgun við viðfangsefnið en hún er m.a. nýbúin að opna einkasýninguna Skrúðgarður, í Listasafninu á Akureyri þar sem hún sýndi textílverk sín. Sú sýning stendur fram til 15. Ágúst 2021. Verk sýningarinnar eru mjög fjölbreytt hvað varðar útfærslu.

 Þar var hún með veggverk, verk á gólfi sem eru þá kannski komin í hlutverk skúlptúrsins og verk á þaki safnsins. Tvo verkanna eru gosbrunnar. Verk eftir hana hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og erlendis. Verk eftir hana er að finna meðal annars á yfirstandandi sýningu á Listasafni Íslands, Listþráðum. En Lilý er að opna sýningu í nýrri sýningarröð Listvals í samstarfi við Norr11 nú í byrjun nóvember.

Sem fyrr segir hefur Lilý fundið farveg fyrir listsköpun sína á fjölbreyttan hátt. Eitt af því sem hún hefur verið að gera undanfarið eru mjög heillandi, falleg og húmorísk veggverk, einskonar handmáluð veggfóður. Í fyrstu virðist sem veggirnir séu veggfóðraðir á hefðbundinn hátt, en þegar betur er að gáð er allur veggurinn handmálaður af natni og alúð.

Hér að neðan eru verk úr smiðju Lilýjar Erlu. Textílverkin hennar eru af ýmsum stærðum og umfangi, og veggverkin gjarnan sérsniðin að hverju rými fyrir sig. Þau sem vilja fjárfesta í list eftir unga, hæfileikaríka og innblásna listakonu geta skoðað úrvalið á heimasíðu og samfélagsmiðla síðum hennar. En linka á þessar síður er að finna neðst í greininni.

 

 


Aðalmynd með grein, sem og sú neðsta eru teknar af Sögu Sigurðardóttur. Myndin af Lily Erlu sem tekin er á sýningu Listasafns Akureyrar er tekin af Helgu Birgisdóttur og mynd(ir) af veggverki eru teknar af Kristínu Helgu Schiöth. Myndirnar eru í eigu listakonunnar og birtar með hennar leyfi.

 

Á sýningunni á Listasafninu á Akureyri

Gosbrunnur á sýningu í Listasafni Akureyrar

Loðið og mjúkt

Hér er dæmi um handmálað veggfóður að hætti Lilyar Erlu

Lily Erla í sínu náttúrulega umhverfi umlukin litríkum þráðum og list á vinnustofunni

Share This