Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne er útskrifaður dýrafræðingur frá Háskólanum í Glasgow sem ákvað síðan að venda kvæði sínu í kross og skella sér í diplomanám á keramikbraut í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift í Myndlistaskólanum lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún hefur dvalið síðastliðna mánuði sem lærlingur hjá Christian Bruun sem er einn af virtustu leirlistamönnum Danmerkur.

„Vinnan mín fyrir Christian er endalaust fjölbreytt, það er aldrei leiðinlegt! Hann hefur verið ótrúlega styðjandi yfirmaður og vill að ég læri af þessari vinnu ásamt því að stækka mína eigin sköpun og finna leið til að ég geti orðið sjálfstæð”, segir Isabel þegar við spurðum hana hvernig það er að vinna fyrir svona virtan hönnuð.

Aðspurð segist Isabel illa geta skilgreint hvaðan hún er, en reynir þó: „Ég er spænsk/ensk, fædd og uppalin í Belgíu en ég hef búið á svo mörgum stöðum í gegnum tíðina að það er erfitt að segja hvaðan ég er, nákvæmlega! Ég bý eins og er í Kaupmannahöfn þar sem ég er að vinna að verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og er nú lærlingur hjá leirlistamanninum Christian Bruun. Ég vonast til að geta unnið sem leirgerðarkona í hjáverkum í framtíðinni, að vinna mína eigin listmuni og selja þá á netinu,” segir Isabel.

Sættist að lokum við dýrafræðina

Þegar leitað er eftir hvaðan Isabel fær innblásturinn segir hún hann alltaf leita í bakgrunn hennar í dýrafræðinni: „Þegar ég var á síðasta árinu mínu í náminu að skrifa lokaverkefni og læra fyrir lokaprófið hataði ég dýrafræðina. Ég þurfti að finna einhverjar flóttaleið og þannig uppgötvaði ég leirinn. Á fyrsta árinu mínu í MÍR (Myndlistarskólinn í Reykjavík) vildi ég ekki að dýrafræðin yrði minn aðalinnblástur, ég ýtti því frá mér. Sérstaklega þar sem þessar stressandi minningar frá því að klára námið voru mér ferskar í minni.”

„Á þessum árum þar sem ég var að læra í MÍR sættist ég við að þó námið í dýrafræðinni hafi verið tilfinningalega krefjandi, elskaði ég fagið samt sem áður. Ég held að það sé erfitt að deila um að nokkurn listamann sé að finna sem EKKI sækir innblástur sinn í náttúruna. Allavega ÞEIRRA útgáfu af náttúru, umhverfið í kringum þá eða landslagið sem þeir sækja í. Náttúran er bara þannig afl allt í kringum okkur sem allir finna fyrir, og það er mjög kraftmikið afl til sköpunar.”

„Dýrafræðin gerði mér kleift að stúdera þennan kraft á mjög vísindalegan, sundurskorinn og magnvirkan hátt. Að vinna með leir leyfir mér að skilja náttúruna á þennan hátt, án hafta og stífra vísindalegra mælinga.”

„Útskriftarverkefnið mitt hjá Mír var kallað Architecture for Insects (fornleifafræði handa skordýrum) og það var algerlega og skammarlaust innblásið af námi mínu í dýrafræði. Það verkefni var í raun ég að sætta mig við að ég ætti ekki að skammast mín fyrir það sem ég gerði áður en ég varð listamaður. Að það sé ekki listfræðilegt nám, þýðir ekki að listfræðilegt sé ekki „nytsamlegt.” Segir Isabel og heldur áfram.

„Það sem ég áttaði mig á í þessu verkefni að gerði mig öðruvísi var þessi fortíð og þessi bakgrunnur og þessvegna væri ég einstök sem leirkerasmiður. Það er tvískipting í persónuleikanum mínum, bæði sem vísindamaður og sem listamaður og ég fann loksins leið til að láta þetta tvennt vinna saman til að verða styrkur minn og innblástur,” segir Isabel.

En af hverju kallaði leirinn á hana?

„Leir er svo sérstakur. Það er engin önnur leið til að lýsa honum. Hann hefur ótrúlegt aðdráttarafl, lofar svo mörgu, veldur endalausum vonbrigðum, og samt gefur þér eitthvað alveg einstakt, það er ótrúlegt. Það getur tekið mannsævi að fullgera leirverk og samt er eiginlega ekki hægt að segja að einhver geti fullkomnað það. Leirinn er sinn eigin meistari, og hann gerir oft það sem hann vill.”

„Ég held að það sé það sem dregur mig helst að honum. Það er þetta óþekkta og endalausa lærdómskúrva, maður vonast eftir litlum óvæntum hlutum sem koma oft með ánægjulegum slysum,” segir Isabel og brosir.

Nú hefur þú opnað þína eigin vefsíðu með hönnuninni þinni, segðu okkur frá því og framtíðarplönunum.

„Ég er nú á síðustu viku í Erasmus+ verkefninu og mér finnst að þetta sé bara byrjunin. Ég er með svo mörg spennandi járn í eldinum, sérstaklega námskeiðin sem ég mun halda í stúdíóinu hans Christians í sumar og öðrum keramikstúdíóum í Kaupmannahöfn (Yonobi og Let’s Clay). Að vinna með leir er eitthvað sem hefur komið mér í gegnum erfiða tíma og ég vil geta gefið öðru fólki þessa sömu tilfinningu,” segir Isabel einlæg.

„Að vinna sjálfstætt og sem listamaður er ekki eitthvað sem þú myndir tengja við „fjárhagslega velgengni.” En ég áttaði mig fyrir löngu síðan að ég myndi frekar vilja gera eitthvað sem ég elskaði og léti mig brosa þegar ég vakna á morgnana frekar en að vinna vinnu sem borgar reikiningana en mér liði ömurlega. Sem betur fer hefur Kaupmannahöfn svo mörg tækifæri og það er borg sem getur virkilega virkað fyrir sjálfstætt starfandi fólk og listafólk sem vill búa til list og lifa á henni. Það eru ekki margir þannig staðir í heiminum.”

„Í dag er ég að skapa nýja línu sem ég er mjög spennt fyrir og ég get ekki beðið með að deila henni með fólki. Ég get ekki beðið eftir að halda ferðalaginu áfram og sjá hvert leirheimurinn tekur mig, “ segir Isabel að lokum.

Samfélagsmiðlahnappar hér fyrir neðan eru beint inná Instagram & Facebook hjá Isabel.

 
Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla rekur hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og heldur úti vefsíðunni www.artless.is þar sem hún selur sína fallegu hönnun. Innlit var að skrolla á Instagram, eins og svo oft áður, í leit að skemmtilegum viðmælendum þegar hún rakst á reikninginn hennar Heiðdísar Höllu. Við fengum að senda á hana nokkrar spurningar og hér situr hún fyrir svörum.

Hver er Heiðdís Halla?

„Ég er helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu. Ég er fljótfær með fullkomnunaráráttu. Mamma segir að ég sé „fegurðarsjúklingur”, það er líklega rétt hjá henni. Ég trúi því að maður eigi að gera það sem mann langar, fylgja hjartanu, það gerir það enginn fyrir mann þó svo gott fólk geti stutt mann áfram,” segir Heiðdís og heldur áfram.

„Ég er uppalin á Egilsstöðum, farin að heiman sextán ára með fiðrildi í maganum. Hef búið síðan á Akureyri, í París, Kaupmannahöfn, Reykjavík, og er nýlega flutt aftur heim í faðm fjölskyldunnar á Egilsstöðum og verð hér þangað til annað kemur í ljós.

Ég hef tekið að mér allskonar verkefni og hef unnið á mörgum stöðum. Flugfreyja, þjónustufulltrúi í banka, hótelstýra, ræstitæknir, afgreiðsludama í sjoppu og verslunarstjóri í tískubúð, kennari svo eitthvað sé nefnt. En ég er með stúdentspróf af málabraut Menntaskólans á Akureyri, með BA próf í frönsku og diplóma í kennslufræði. Ég elska að kenna. Ég er líka menntaður grafískur hönnuður. Ástríða mín er að skapa og hanna. Ég held að minn kaótíski lífstíll og stefna hafi gefið mér skilning og næmni á alls konar fyrirbæri og fólk sem nýtist mér í minni sköpun,” segir Heiðdís.

„Í dag rek ég mitt eigið hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og vefverslunina www.artless.is þar sem ég sel mína eigin hönnun.“

Segðu okkur frá artless:

„artless er vörumerkið mitt. Ég valdi nafnið þegar ég ákvað að opna vefverslun með minni eign hönnun. Mig langaði að skapa eigið nafn/vörumerki án þess að hafa eiginnafnið mitt á öllu og á bak við allt. Ég er með fullt af hugmyndum um hvert ég vil fara með vefverslunina og ætla mér að þróa hana áfram.

Mér fannst enska orðið artless ná vel utan um vörumerkið og  hönnun mína. Artless þýðir í raun; laus við tilgerð, einfalt, náttúrulegt en það getur líka þýtt laust við list og mér finnst það kallast skemmtilega á við að ég vinn flest mín verk í tölvu.“

Þegar Heiðdís Halla byrjaði í myndlistarskólanum á Akureyri var hún fyrst skráð í fagurlistadeild en fann fljótlega að önnur deild heillaði hana meira: „Ég byrjaði í fagurlistadeild en eftir einhverja mánuði fann ég mjög sterkt að ég var ekki endilega á réttum stað og fékk að skipta yfir í grafíska hönnun sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég fann það strax að ég hafði breytt rétt og hef alltaf verið sátt við að hafa skipt milli deilda. En það er svolítið undarlegt að í grafískri hönnun leitast ég mest í að skapa list, og nálgun mín er líklega blönduð nálgun af grafík og list.”


Ljósmynd/Sigga Ella

Heiðdís Halla opnaði artless.is á afmælisdaginn sinn, 4. september 2020, svo vefverslunin er ekki orðin ársgömul: „Móttökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og gefið mér byr undir báða vængi til að halda áfram að skapa, hlusta á innsæið og framkvæma. Maður á að framkvæma ef mann langar til þess. Maður þarf að bera virðingu fyrir ferlinu og leyfa hlutunum að þróast. Ég er rosalega óþolinmóð og ég vil alltaf gera allt strax en ég er orðin betri í að muna að góðir hlutir gerast hægt. Ég er með margar hugmyndir og mörg járn í eldinum en ætla að leyfa mér að hafa tímalínuna á mínum forsendum þar sem ég sé um allt sjálf innan fyrirtækisins, nema að ég er reyndar með bókara í vinnu sem sér um pappírana, annars væri allt í rugli,” segir Heiðdís Halla og hlær.

Hvað veitir þér innblástur í þinni hönnun?

“Ég held að ég sé alltaf að leita að innblæstri og ég horfi og pæli mikið í litum og litasametningum. Ég tek myndir af áhugaverðum litasamsetningum, fjöllum og því sem vekur áhuga minn hverju sinni og styðst oft við þær myndir ef mig vantar kraft eða innblástur. Ég les mikið af hönnunarblöðum og skoða hönnunarsíður á netinu og er voða mikið með hausinn stilltan á innblásturs- og hugmyndaleit alla daga. Ég elska líka að keyra ein. Bara keyra og horfa. Þá koma oft hugmyndirnar bara sjálfkrafa til mín.”

Upplifir þú það hamlandi eða styrkjandi að koma hönnun þinni og verkum á framfæri búandi í litlu bæjarfélagi út á landi?

„Þetta er frábær spurning. Nefnilega bæði! Það er klárlega jákvæðni og kraftur sem ég fæ frá fólkinu í kringum mig hér úti á landi og fólk er mjög reiðubúið til að aðstoða og styðja mig og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég vil líka nýta þá þjónustu sem er í boði á svæðinu við framleiðslu á vörunum þá er ég að  hugsa um vistsporið sem framleiðslunni og flutningunum fylgir og um að styrkja atvinnulífið á svæðinu,“ segir Heiðdís Halla.

„En það er nú bara þannig að ég fæ ekki næstum því allt sem mig vantar hér. Hvorki þjónustu né hráefni og því þarf ég að sækja margt til Reykjavíkur eða Akureyrar. Það er líka mjög dýrt að fá hluti senda og þegar ég kaupi textíl, plakathólka, sérstakan pappír, prentun á ál og allskonar þjónustu. Kostnaðurinn er alltaf miklu hærri út af flutningskostnaði sem hægt væri að sleppa við ef ég byggi í Reykjavík. Það munar helling. Þar að auki get ég ekki skotist með pakkana sjálf í heimkeyrslu í borginni, en þangað fara langflestar vörurnar, allt fer með póstinum suður. Stundum þarf ég líka að leggja allt mitt traust á einhvern í símanum sem segir mér hvernig eitthvað muni koma út eða muni virka og svo vona ég bara það besta, það getur líka verið dýrt spaug þó það gangi líka oft upp. Ég þarf að vera þolinmóð og anda því hlutirnir taka bara hreinlega lengri tíma vegna alls konar flækjustiga. En ég er orðin sjóuð í að gera lista og gjörnýti allar mínar ferðir til að skoða og ná í það sem mig vantar. Þannig að þessi frábæra spurning er með allskonar svör. Ég gæti eflaust framkvæmt hraðar og meira ef ég byggi enn í borginni. Það þýðir ekkert að hugsa bara um það og gera ekkert. Maður nýtir það sem maður hefur og nær í hitt, þó það taki lengri tíma og sé dýrara, þá er það bara það sem þarf að gera til að framkvæma það sem mann langar til!” segir Heiðdís Halla að lokum.

Ljósmyndir Auðunn Nilsson og í einkaeigu.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður Artless.

 

 
Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla fatamerki Áslaugar Magnúsdóttur viðskipta- og athafnakonu og Hendrikka Waage skartgripahönnuður og myndlistakona hafa nú sameinað krafta sína og frumsýndu í dag nýja línu sem ber nafnið “Wonderful beings”. Um ræðir boli og peysur sem eru hannaðar undir merkjum Katla skreytt myndlistarverkum Hendrikku Waage sem koma í takmörkuðu upplagi.

Hendrikka Waage sem er einna þekktust fyrir skartgripahönnun sína hélt sýningu á myndlistarverkum sínum hér á landi í ágúst í fyrra. En verkin sem eru protrait og prýða litíkar og fallegar konur hafa nú verið yfirfærðar á fatnað frá Katla.  Katla fatamerkið höfum við aðeins fjallað um á Innlit og prýddi það meðal annars lista yfir uppáhalds jogginggallana okkar eftir íslenska hönnuði.

Það er einstaklega skemmtilegt og táknrænt að sjá hvernig tvær dýnamískar íslenskar viðskipta- og listakonur nota krafta sína á alþjóðlegum degi kvenna með því að sameina hönnun sína á svo faglegan og flottan hátt. Útkoman er hreint út sagt frábær. Til hamingju með daginn Áslaug, Hendrikka sem og allar aðrar konur!

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Það er fátt sem er meira heillandi en þæginlegur og fallegur fatnaður. Sú staðreynd að fallegir og vel hannaðir jogginggallar hafa verið að tröllríða tískuheiminum um þessar mundir er einstaklega ánægjuleg staðreynd, að margra mati, þar á meðal undirritaðar. Að klæðast fallegum jogginggalla þykir alls ekki vera “understatement” því að vera í smart jogging fötum við háa hæla og fínan frakka þykir alveg einstaklega elegant. Svo er ekki síður töff að vera í flottum grófum götuskóm við eða bara skottast um á stigaskónum!

Innlit tók saman uppáhalds jogging-dressin sín eftir íslenska hönnuði. Einstaklega smart dress öll sem eitt og hér látum við fylgja nokkrar staðreyndir um merkin og hönnuðina á bak við þau.

Hver: Bára Hólmgeirsdóttir er hönnuðurinn á bak við Aftur. Bára hefur ávallt verið langt á undan sinni samtíð þegar kemur að sjálfbærni, endurnýtingu og umhverfismálum.

Hvar: Aftur er staðsett við Laugaveg 45 í 101 Reykjavík.

Stefna: Aftur var stofnað árið 1999 og hefur allt frá byrjun hannað fatnað út frá endurunnum fatnaði. Það sem einkennir Aftur er sjálfbærni, umhverfisvitund og virðing fyrir náttúru og dýrum. Bára hlaut viðurkenninguna Eldhugi í umhverfismálum árið 2020 á vegum Reykjavíkurborgar.

Hver: Heba Björg Hallgrímsdóttir er hönnuðurinn á bak við Absence of color, eða AOC. Heba byrjaði ung í tískubransanum og hefur verið viðlogandi hann síðan hún var 17 ára. Hún ákvað árið 2013 að opna AOC. 2014 uppgvötaði Topshop merki hennar á ASOS Marketplace sem er showroom fyrir lítil sjálfstæð merki og síðan þá hefur fyrirtæki hennar farið ört vaxandi.

Hvar: AOC er staðsett í London og er með eigin verslanir í Bretlandi og í New York. Vörur AOC eru seldar í 20 verslunum í Mið-Austurlöndum sem og minni sjálfstæðum verslunum víðsvegar um Evrópu. Vörur AOC er einnig að finna í vefverslunum Topshop og Nordstrom.com 

Stefna: Tímalaus hönnun sem er mínímalísk. 

Hver: Hönnuður Katla er Áslaug Magnúsdóttir viðskiptakona og frumkvöðull. Áslaug var fyrsta kona Íslands til að útskrifast með MBA frá viðskiptadeild Harvard háskólans og hefur einnig getið af sér gott orð í heimi lúxusenda fatatískunnar í Bandaríkjunum.

Hvar: Áslaug Magnúsdóttir hefur verið búsett og starfandi í Bandaríkjunum í mörg ár og er lína hennar Katla framleidd þar ytra.

Stefna: REDUCE – REUSE – RECYCLE. Umhverfisvæn stefna í framleiðsluferli, lífræn og náttúruleg efni notuð í flíkur. Bjóða uppá tímalausa hönnun og hágæða vörur og þjónustu. Þau bjóða einnig viðskiptavinum sínum upp á að senda þeim tilbaka flíkur sem þeir hættir eru að nota þeim að kostnaðarlausu og bjóða inneign upp í næstu kaup.


Aníta Briem leikkona tekur sig vel út í hönnun KATLA. Töff joggari og skæsuleg taska með, er flott samsetning.

AOC gallarnir eru mjög “reffilegir” og flottir við CONVERSE sem og háa hæla.

Aftur stendur ávallt fyrir sínu, grófir Dr.Marteins eru alveg málið í vetur.

Hanna unisex fatnað fyrir grunnskólabörn

Hanna unisex fatnað fyrir grunnskólabörn

Hanna unisex fatnað fyrir grunnskólabörn

Eva og Oddný eru með frekar ólíkan bakrunn, Eva er með gráðu í markaðsfræðum og mannauðsstjórnun en Oddný er hjúkrúnarfræðingur að mennt og vinnur sem slíkur hún er einnig með brennandi áhuga á handavinnu. En þær eiga þó eitt og annað sameiginlegt sem leiddi þær út í það að fara að hanna saman fatnað fyrir börn. Svona fyrir utan það að vera mágkonur, þá eru þær báðar fagurkerar, hafa næmt auga fyrir hönnun og finnst mjög gaman að versla fatnað! Þær eiga líka börn á grunnskólaaldri og fundu þörf til að sinna þeim markaði hvað varðar þæginlegan, mjúkan og kynlausum fatnað.

Hefur lengi langað að fara saman út í rekstur 

“Okkur hefur lengi langað að fara út í rekstur saman og áttum næstum 3ja ára gamalt vinnuskjal með hugmyndum að vörumerkjum til að flytja inn sem við dustuðum rykið af reglulega. Við vorum þá báðar í fullri vinnu og með lítil börn þannig að það gerðist lítið. Síðasta vetur var ég að vakna aftur til lífsins eftir kulnun og Oddný í fæðingarorlofi þá ákváðum við að skoða þetta fyrir alvöru, segir Eva, en sáum þá fljótt að flest þessara vörumerkja sem við höfðum listað niður voru nú fáanleg á íslenskum markaði.

“Það sem þessi vörumerki áttu sameiginlegt var að þau fókusa að mestu á ungabörn og unga krakka. Við sáum þá að það vantaði frekar fatnað og vörur fyrir börn á grunnskólaaldri og verandi móðir tveggja barna á þeim aldri þá hafði ég upplifað það af eigin raun hvað það getur verið erfitt að fá fatnað við hæfi, bætir Eva við. Út frá því fórum við að skoða vörumerki til innfluttnings sem væru með gott úrval fyrir grunnskólabörn en svo virðist sem það sé gat í þessum markaði á fleiri stöðum en á Íslandi og fundum við ekkert sem okkur leist á.”

Fatnaðurinn sem við vorum að leita eftir þurfti að tikka í nokkur box hvað varðar þægindi og gæði, hann þurfti einnig að henta íslensku veðurfari, vera kynlaus og að sjálfsögðu á viðráðanlegu verði fyrir allflesta.

Segið mér aðeins frá þessari pælingu að vera með UNISEX fatnað? “Öll okkar hönnun, hvort sem það eru snið eða litir er gert með einstaklinginn í huga ekki kyn. Börn eiga ekki að óttast að versla það sem þeim þykir flott því það er búið að setja þau og fatnaðinn í eitthvað fyrirfram ákveðið box. Við leggjum líka mikið upp úr því að sýna fjölbreytileikann á samfélagsmiðlum því við sem foreldrar þurfum oft líka að koma okkur út úr þessu boxi.

Hvar er hægt að nálgast vörurnar? “Vörurnar verða fáanlegar í netverslun okkar. Þar verður að finna peysur, buxur, boli, jakka, húfur, sundpoka og fleiri fylgihluti. Við ætlum að vera duglegar að bæta nýjum vörum við reglulega í stað þess að koma með heilar vörulínur nokkrum sinnum yfir árið.”

 

Hér má sjá dæmi um hönnun tvíeykisins. Fyrir neðan myndir er linkur á Fésbókarsíðu og Instagram ELEVEN RVK.

 

Vefsíða og verslun: www.elevenrvk.is

Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Í fallegu Sigvaldahúsi, raðhúsi frá sjötta áratugnum tekur María Pétursdóttir á móti blaðamanni og ljósmyndara Innlits. Við fáum okkur kaffi í eldhúsinu og biðjum Maríu að leysa frá skjóðunni varðandi fallegu peysurnar sem hún hefur verið að hanna og framleiða undir merkjum Maríuklæða undanfarin ár. Sagan er áhugaverð, í raun sigursaga þar sem erfiðiðum aðstæðum var breitt í ævintýri sem sér ekki fyrir endann á. Sagan er falleg og persónuleg. Það byrjaði með sjali úr Jakuxa ull sem Baddi, maðurinn hennar Maríu, keypti handa henni í Nepal. Hann fór þangað til að vera vitni í kosningum útlagastjórnar Tíbet í Nepal og sá þessi fallegu sjöl. María er með ofnæmi fyrir venjulegri ull en er líka oft kalt svo hann var að vona að hún myndi þola Jakuxa ullina, sem hún og gerði.

Sjalið var mikill happafengur og tók María sjalið varla af sér. Haustið eftir langaði hana í fallega peysu en fann enga vandaða peysu sem var ekki úr ull. Hún varð sér því úti um nýtt sjal frá Nepal og saumaði peysu úr því.

María hellir uppá kaffi handa blaðamanni.

Mamma Maríu er leikmynda- og búningahönnuðurinn Messíana Tómasdóttir og er María eiginlega alin upp við saumavélina og hefur alltaf saumað mikið af sínum eigin fötum. María hefur leitað í þekkingarbrunn mömmu sinnar og segir um hana: „Hún bókstaflega kann allt sem tengist hönnun og saumaskap og svo fáum við líka bara svo góðar hugmyndir þegar við vinnum saman.”

„Ég var á tímamótum í lífinu. Ég var búin að vera menntaskólakennari í 14 ár og elskaði vinnuna mína en var að glíma við heilsubrest og kennslan reyndist mér mjög erfið með veikindunum og ég var í veikindaleyfi. Ég fór að ganga í peysunni og alls konar konur voru að spyrja mig hvar ég hefði fengið hana og hvort ég væri til í að gera svona handa þeim.”

María er hér á uppáhalds staðnum sínum í stofunni, turkisbláa stólnum við gluggann.

Ein af bestu vinkonum hennar, sem er mikil smekkmanneskja að mati Maríu hafði þarna mikil áhrif og hvatti hana eindregið til að prófa að sauma nokkrar peysur og sjá hvað myndi gerast. María lagðist í rannsóknarvinnu og fann loksins lítið fjölskyldufyrirtæki í Nepal sem sérhæfir sig í fair-trade iðnaði kvenna, með öruggan vinnustað og vistvæna framleiðslu. María setti sig í samband við þau og úr varð að hún pantaði fimm sjöl og byrjaði að sauma peysur og ponsjó sem ruku út svo hún pantaði meira og boltinn fór að rúlla.

Þetta var í nóvember 2014. María bjó til Facebook síðu og nafnið kom alveg óvænt. „Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

„Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

Stofunni var breytt í vinnustofu og svo var notast við 50 ára gamla saumavél sem amma Maríu hafði átt og notaði til að sauma föt á börn og barnabörn. Svo kom mamma hennar með gamla overlock vél sem hún hafði keypt 20 árum áður en aldrei notað.

Fjölskyldan er síðan flutt í stærra húsnæði svo nú er María komin með vinnustofu heima og var Innliti boðið að kíkja inn í helgidóminn sem er uppfullur af fallegum litum og spennandi smáatriðum. Nú þarf María ekki lengur að færa til saumavélar til að borða kvöldmatinn.

„Næst gerðist það að ég komst yfir Bambus efni sem sem ég kolféll fyrir segir María „Það er allra þægilegasta efni sem ég hef klæðst og svo heldur það sér ótrúlega vel. Ég er enn að gera kjóla og peysur úr Bambus og svo handgeri ég mynstur í hverja og eina flík.” Því miður er ekki mikið til af því núna vegna ástandsins í tengslum við Covid en í gegnum tíðina hefur María þurft að fara til Bandaríkjanna til að kaupa gott Bambus efni. Varðandi Jakuxa ullina þá var hún svo heppin að ná stórri pöntun af sjölunum áður en Covid lamaði allt í Nepal og á því ennþá smá lager. Vegna erfiðs ástands þar liggur öll framleiðsla niðri.

„Einn af ávöxtum Maríuklæða er að ég hef eignast fallegt vinasamband við þessa yndislegu fjölskyldu sem ég kaupi sjölin af og við höfum verið í miklu sambandi. Í fyrra komst ég svo loksins sjálf til Nepal og það var ómetanlegt að hitta þetta frábæra fólk sem mér hefur þótt svo vænt um öll þessi ár.”

Það voru samt ekki Maríuklæði sem sendu Maríu í þessa Nepal ferð. Hún fór með átta vinkonum sínum í ferð sem þær hafði dreymt um í mörg ár.

„Ein okkar, hefur búið í Nepal með annan fótinn allt sitt líf og okkur hefur lengi langað að heimsækja hana. Hún skipulagði fyrir okkur ævintýraferð sem er gjörsamlega ógleymanleg og efni í heila bók. Að fá að hitta Ramesh vin minn og fjölskyldu hans var svo algjör bónus.”

Í ferðinni keypti María slatta af silkisaríum sem hana langar að gera eitthvað úr, Hún hefur ekki klárað þá rannsóknarvinnu, tilraunirnar halda áfram og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

María saumar hverja flík fyrir sig og hefur ekki leitað að samstarfsaðila varðandi sölu á fötunum. Oft koma bara  eitt eða tvö sjöl í sama mynstri og lit svo fjöldaframleiðsla er ekki inni í myndinni og allt er þetta að gerast í anda „slow” hreyfingarinnar sem er að verða sífellt vinsælli. Fólk kann vel við persónulega nálgun, að geta jafnvel rætt við þann sem framleiðir flíkina sem er hrein andstæða við fjöldaframleiðsluna sem er á allan hátt ópersónuleg og er að fara illa með umhverfið, ekki síst í þriðja heiminum þaðan sem María hefur þróað sín viðskiptasambönd. Það á því vel við að konur koma hreinlega á vinnustofuna, velja sér sjal sem María saumar svo úr í stærð og sniði sem þær velja.

María hefur verið að gera skartgripi meðfram fatahönnuninni. „Ég hef alltaf haft áhuga á skartgripagerð og gert mitt eigið skart en í fyrra fór ég að gera skart til að selja líka. Ég gerði aðallega það sem ég kalla fjölskylduhálsmen, sem samanstendur af einum geisla fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Ég gerði líka eyrnalokka, töskur og kraga.

Það hefur hentað vel undanfarna mánuði að geta hitt konur í gegnum vefmiðla og sumar hafa þannig skoðað og pantað án þess að koma til mín og fengið peysuna bara senda heim. Ég hef líka verið með gjafabréf sem hefur verið vinsæl jólagjöf.

En það sem mér finnst kannski skemmtilegast við þetta allt saman er hvað þetta litla ævintýri er persónulegt. Ég hef talað við nánast allar konurnar sem eiga Maríuklæði og þegar ég sauma flík veit ég alltaf hver mun fá hana. Mér finnst fátt skemmtilegra í dagsins önn en að hitta konu í Maríuklæðunum sínum.

 


Til að fá frekari upplýsingar um Maríuklæði má fara á Facebook og Instagram síður Maríuklæða en þar eru fjöldinn allur af myndum af peysunum, skartinu og öðru sem María hefur verið að hanna. Hægt er að hafa samband við Maríu til að kaupa flík eða gjafabréf í gegnum síðurnar. Sjá linka á samfélagsmiðla neðst á síðunni.

 


Vinnustofan er lítil en falleg með efnum, litum og áferðum frá fjarlægum stöðum en einnig eru þar munir sem tengjast fjölskyldusögu Maríu og sköpunarheimi hennar, svo sem saumavélar, saumabox, myndir og fleira.