Maríuklæði verða til í Sigvaldahúsi í Kópavoginum

Í fallegu Sigvaldahúsi, raðhúsi frá sjötta áratugnum tekur María Pétursdóttir á móti blaðamanni og ljósmyndara Innlits. Við fáum okkur kaffi í eldhúsinu og biðjum Maríu að leysa frá skjóðunni varðandi fallegu peysurnar sem hún hefur verið að hanna og framleiða undir merkjum Maríuklæða undanfarin ár. Sagan er áhugaverð, í raun sigursaga þar sem erfiðiðum aðstæðum var breitt í ævintýri sem sér ekki fyrir endann á. Sagan er falleg og persónuleg. Það byrjaði með sjali úr Jakuxa ull sem Baddi, maðurinn hennar Maríu, keypti handa henni í Nepal. Hann fór þangað til að vera vitni í kosningum útlagastjórnar Tíbet í Nepal og sá þessi fallegu sjöl. María er með ofnæmi fyrir venjulegri ull en er líka oft kalt svo hann var að vona að hún myndi þola Jakuxa ullina, sem hún og gerði.

Sjalið var mikill happafengur og tók María sjalið varla af sér. Haustið eftir langaði hana í fallega peysu en fann enga vandaða peysu sem var ekki úr ull. Hún varð sér því úti um nýtt sjal frá Nepal og saumaði peysu úr því.

María hellir uppá kaffi handa blaðamanni.

Mamma Maríu er leikmynda- og búningahönnuðurinn Messíana Tómasdóttir og er María eiginlega alin upp við saumavélina og hefur alltaf saumað mikið af sínum eigin fötum. María hefur leitað í þekkingarbrunn mömmu sinnar og segir um hana: „Hún bókstaflega kann allt sem tengist hönnun og saumaskap og svo fáum við líka bara svo góðar hugmyndir þegar við vinnum saman.”

„Ég var á tímamótum í lífinu. Ég var búin að vera menntaskólakennari í 14 ár og elskaði vinnuna mína en var að glíma við heilsubrest og kennslan reyndist mér mjög erfið með veikindunum og ég var í veikindaleyfi. Ég fór að ganga í peysunni og alls konar konur voru að spyrja mig hvar ég hefði fengið hana og hvort ég væri til í að gera svona handa þeim.”

María er hér á uppáhalds staðnum sínum í stofunni, turkisbláa stólnum við gluggann.

Ein af bestu vinkonum hennar, sem er mikil smekkmanneskja að mati Maríu hafði þarna mikil áhrif og hvatti hana eindregið til að prófa að sauma nokkrar peysur og sjá hvað myndi gerast. María lagðist í rannsóknarvinnu og fann loksins lítið fjölskyldufyrirtæki í Nepal sem sérhæfir sig í fair-trade iðnaði kvenna, með öruggan vinnustað og vistvæna framleiðslu. María setti sig í samband við þau og úr varð að hún pantaði fimm sjöl og byrjaði að sauma peysur og ponsjó sem ruku út svo hún pantaði meira og boltinn fór að rúlla.

Þetta var í nóvember 2014. María bjó til Facebook síðu og nafnið kom alveg óvænt. „Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

„Vinkona mín sendi mér póst og sagði að maðurinn sinn væri búinn að samþykkja að gefa sér “Maríuklæði” í jólagjöf. Ég á henni að þakka þetta fallega nafn, því ég var búin að brjóta heilann í marga mánuði án þess að finna nafn sem mér fannst alveg passa.”

Stofunni var breytt í vinnustofu og svo var notast við 50 ára gamla saumavél sem amma Maríu hafði átt og notaði til að sauma föt á börn og barnabörn. Svo kom mamma hennar með gamla overlock vél sem hún hafði keypt 20 árum áður en aldrei notað.

Fjölskyldan er síðan flutt í stærra húsnæði svo nú er María komin með vinnustofu heima og var Innliti boðið að kíkja inn í helgidóminn sem er uppfullur af fallegum litum og spennandi smáatriðum. Nú þarf María ekki lengur að færa til saumavélar til að borða kvöldmatinn.

„Næst gerðist það að ég komst yfir Bambus efni sem sem ég kolféll fyrir segir María „Það er allra þægilegasta efni sem ég hef klæðst og svo heldur það sér ótrúlega vel. Ég er enn að gera kjóla og peysur úr Bambus og svo handgeri ég mynstur í hverja og eina flík.” Því miður er ekki mikið til af því núna vegna ástandsins í tengslum við Covid en í gegnum tíðina hefur María þurft að fara til Bandaríkjanna til að kaupa gott Bambus efni. Varðandi Jakuxa ullina þá var hún svo heppin að ná stórri pöntun af sjölunum áður en Covid lamaði allt í Nepal og á því ennþá smá lager. Vegna erfiðs ástands þar liggur öll framleiðsla niðri.

„Einn af ávöxtum Maríuklæða er að ég hef eignast fallegt vinasamband við þessa yndislegu fjölskyldu sem ég kaupi sjölin af og við höfum verið í miklu sambandi. Í fyrra komst ég svo loksins sjálf til Nepal og það var ómetanlegt að hitta þetta frábæra fólk sem mér hefur þótt svo vænt um öll þessi ár.”

Það voru samt ekki Maríuklæði sem sendu Maríu í þessa Nepal ferð. Hún fór með átta vinkonum sínum í ferð sem þær hafði dreymt um í mörg ár.

„Ein okkar, hefur búið í Nepal með annan fótinn allt sitt líf og okkur hefur lengi langað að heimsækja hana. Hún skipulagði fyrir okkur ævintýraferð sem er gjörsamlega ógleymanleg og efni í heila bók. Að fá að hitta Ramesh vin minn og fjölskyldu hans var svo algjör bónus.”

Í ferðinni keypti María slatta af silkisaríum sem hana langar að gera eitthvað úr, Hún hefur ekki klárað þá rannsóknarvinnu, tilraunirnar halda áfram og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

María saumar hverja flík fyrir sig og hefur ekki leitað að samstarfsaðila varðandi sölu á fötunum. Oft koma bara  eitt eða tvö sjöl í sama mynstri og lit svo fjöldaframleiðsla er ekki inni í myndinni og allt er þetta að gerast í anda „slow” hreyfingarinnar sem er að verða sífellt vinsælli. Fólk kann vel við persónulega nálgun, að geta jafnvel rætt við þann sem framleiðir flíkina sem er hrein andstæða við fjöldaframleiðsluna sem er á allan hátt ópersónuleg og er að fara illa með umhverfið, ekki síst í þriðja heiminum þaðan sem María hefur þróað sín viðskiptasambönd. Það á því vel við að konur koma hreinlega á vinnustofuna, velja sér sjal sem María saumar svo úr í stærð og sniði sem þær velja.

María hefur verið að gera skartgripi meðfram fatahönnuninni. „Ég hef alltaf haft áhuga á skartgripagerð og gert mitt eigið skart en í fyrra fór ég að gera skart til að selja líka. Ég gerði aðallega það sem ég kalla fjölskylduhálsmen, sem samanstendur af einum geisla fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Ég gerði líka eyrnalokka, töskur og kraga.

Það hefur hentað vel undanfarna mánuði að geta hitt konur í gegnum vefmiðla og sumar hafa þannig skoðað og pantað án þess að koma til mín og fengið peysuna bara senda heim. Ég hef líka verið með gjafabréf sem hefur verið vinsæl jólagjöf.

En það sem mér finnst kannski skemmtilegast við þetta allt saman er hvað þetta litla ævintýri er persónulegt. Ég hef talað við nánast allar konurnar sem eiga Maríuklæði og þegar ég sauma flík veit ég alltaf hver mun fá hana. Mér finnst fátt skemmtilegra í dagsins önn en að hitta konu í Maríuklæðunum sínum.

 


Til að fá frekari upplýsingar um Maríuklæði má fara á Facebook og Instagram síður Maríuklæða en þar eru fjöldinn allur af myndum af peysunum, skartinu og öðru sem María hefur verið að hanna. Hægt er að hafa samband við Maríu til að kaupa flík eða gjafabréf í gegnum síðurnar. Sjá linka á samfélagsmiðla neðst á síðunni.

 


Vinnustofan er lítil en falleg með efnum, litum og áferðum frá fjarlægum stöðum en einnig eru þar munir sem tengjast fjölskyldusögu Maríu og sköpunarheimi hennar, svo sem saumavélar, saumabox, myndir og fleira.

Share This