Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne er útskrifaður dýrafræðingur frá Háskólanum í Glasgow sem ákvað síðan að venda kvæði sínu í kross og skella sér í diplomanám á keramikbraut í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift í Myndlistaskólanum lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún hefur dvalið síðastliðna mánuði sem lærlingur hjá Christian Bruun sem er einn af virtustu leirlistamönnum Danmerkur.

„Vinnan mín fyrir Christian er endalaust fjölbreytt, það er aldrei leiðinlegt! Hann hefur verið ótrúlega styðjandi yfirmaður og vill að ég læri af þessari vinnu ásamt því að stækka mína eigin sköpun og finna leið til að ég geti orðið sjálfstæð”, segir Isabel þegar við spurðum hana hvernig það er að vinna fyrir svona virtan hönnuð.

Aðspurð segist Isabel illa geta skilgreint hvaðan hún er, en reynir þó: „Ég er spænsk/ensk, fædd og uppalin í Belgíu en ég hef búið á svo mörgum stöðum í gegnum tíðina að það er erfitt að segja hvaðan ég er, nákvæmlega! Ég bý eins og er í Kaupmannahöfn þar sem ég er að vinna að verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og er nú lærlingur hjá leirlistamanninum Christian Bruun. Ég vonast til að geta unnið sem leirgerðarkona í hjáverkum í framtíðinni, að vinna mína eigin listmuni og selja þá á netinu,” segir Isabel.

Sættist að lokum við dýrafræðina

Þegar leitað er eftir hvaðan Isabel fær innblásturinn segir hún hann alltaf leita í bakgrunn hennar í dýrafræðinni: „Þegar ég var á síðasta árinu mínu í náminu að skrifa lokaverkefni og læra fyrir lokaprófið hataði ég dýrafræðina. Ég þurfti að finna einhverjar flóttaleið og þannig uppgötvaði ég leirinn. Á fyrsta árinu mínu í MÍR (Myndlistarskólinn í Reykjavík) vildi ég ekki að dýrafræðin yrði minn aðalinnblástur, ég ýtti því frá mér. Sérstaklega þar sem þessar stressandi minningar frá því að klára námið voru mér ferskar í minni.”

„Á þessum árum þar sem ég var að læra í MÍR sættist ég við að þó námið í dýrafræðinni hafi verið tilfinningalega krefjandi, elskaði ég fagið samt sem áður. Ég held að það sé erfitt að deila um að nokkurn listamann sé að finna sem EKKI sækir innblástur sinn í náttúruna. Allavega ÞEIRRA útgáfu af náttúru, umhverfið í kringum þá eða landslagið sem þeir sækja í. Náttúran er bara þannig afl allt í kringum okkur sem allir finna fyrir, og það er mjög kraftmikið afl til sköpunar.”

„Dýrafræðin gerði mér kleift að stúdera þennan kraft á mjög vísindalegan, sundurskorinn og magnvirkan hátt. Að vinna með leir leyfir mér að skilja náttúruna á þennan hátt, án hafta og stífra vísindalegra mælinga.”

„Útskriftarverkefnið mitt hjá Mír var kallað Architecture for Insects (fornleifafræði handa skordýrum) og það var algerlega og skammarlaust innblásið af námi mínu í dýrafræði. Það verkefni var í raun ég að sætta mig við að ég ætti ekki að skammast mín fyrir það sem ég gerði áður en ég varð listamaður. Að það sé ekki listfræðilegt nám, þýðir ekki að listfræðilegt sé ekki „nytsamlegt.” Segir Isabel og heldur áfram.

„Það sem ég áttaði mig á í þessu verkefni að gerði mig öðruvísi var þessi fortíð og þessi bakgrunnur og þessvegna væri ég einstök sem leirkerasmiður. Það er tvískipting í persónuleikanum mínum, bæði sem vísindamaður og sem listamaður og ég fann loksins leið til að láta þetta tvennt vinna saman til að verða styrkur minn og innblástur,” segir Isabel.

En af hverju kallaði leirinn á hana?

„Leir er svo sérstakur. Það er engin önnur leið til að lýsa honum. Hann hefur ótrúlegt aðdráttarafl, lofar svo mörgu, veldur endalausum vonbrigðum, og samt gefur þér eitthvað alveg einstakt, það er ótrúlegt. Það getur tekið mannsævi að fullgera leirverk og samt er eiginlega ekki hægt að segja að einhver geti fullkomnað það. Leirinn er sinn eigin meistari, og hann gerir oft það sem hann vill.”

„Ég held að það sé það sem dregur mig helst að honum. Það er þetta óþekkta og endalausa lærdómskúrva, maður vonast eftir litlum óvæntum hlutum sem koma oft með ánægjulegum slysum,” segir Isabel og brosir.

Nú hefur þú opnað þína eigin vefsíðu með hönnuninni þinni, segðu okkur frá því og framtíðarplönunum.

„Ég er nú á síðustu viku í Erasmus+ verkefninu og mér finnst að þetta sé bara byrjunin. Ég er með svo mörg spennandi járn í eldinum, sérstaklega námskeiðin sem ég mun halda í stúdíóinu hans Christians í sumar og öðrum keramikstúdíóum í Kaupmannahöfn (Yonobi og Let’s Clay). Að vinna með leir er eitthvað sem hefur komið mér í gegnum erfiða tíma og ég vil geta gefið öðru fólki þessa sömu tilfinningu,” segir Isabel einlæg.

„Að vinna sjálfstætt og sem listamaður er ekki eitthvað sem þú myndir tengja við „fjárhagslega velgengni.” En ég áttaði mig fyrir löngu síðan að ég myndi frekar vilja gera eitthvað sem ég elskaði og léti mig brosa þegar ég vakna á morgnana frekar en að vinna vinnu sem borgar reikiningana en mér liði ömurlega. Sem betur fer hefur Kaupmannahöfn svo mörg tækifæri og það er borg sem getur virkilega virkað fyrir sjálfstætt starfandi fólk og listafólk sem vill búa til list og lifa á henni. Það eru ekki margir þannig staðir í heiminum.”

„Í dag er ég að skapa nýja línu sem ég er mjög spennt fyrir og ég get ekki beðið með að deila henni með fólki. Ég get ekki beðið eftir að halda ferðalaginu áfram og sjá hvert leirheimurinn tekur mig, “ segir Isabel að lokum.

Samfélagsmiðlahnappar hér fyrir neðan eru beint inná Instagram & Facebook hjá Isabel.

 
Share This