Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

VERA – Samsýning Christine Gísla, Jónu Þorvaldsdóttur og Katrín Gísladóttir/Katra á ljósmyndum og keramikskúlptúrum í Gallery Grásteini, Skólavörðustíg 4, Reykjavík.

Fimmtudaginn 4.febrúar kl.16.00 opna listakonurnar Christine Gísla, Jóna Þorvaldsdóttir og Katrín Gísladóttir/Katra sýninguna VERA í Gallery Grásteini, á Skólavörðustíg 4, sýningin er staðsett á efri hæð Gallery Grásteins. VERA er á dagskrá Vetrarhátíðar sem hefst 4.febrúar. Á sýningunni sýna þær Christine, Jóna og Katra ljósmyndir og keramikskúlptúra sem eru afrakstur átta mánaða samvinnu þar sem fléttast saman hugleiðingar um tilveruna, líðandi stund og til-veruna í kringum okkur. Allar vinna þær með abstrakt form, hver á sínum forsendum, svo úr verður skemmtileg samsetning ljósmynda og þrívíðra verka.

Sýningin VERA er hluti af Vetrarhátíð – Winter Lights Festival 2021 og verður opin alla daga frá 4. febrúar til 28. febrúar á opnunartíma Gallery Grásteins. 


 

Um listakonurnar þrjár

Christine Gísla útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í Reykjavík árið 2014 og hefur einnig notið leiðsagnar hjá þekktum ljósmyndurum á borð við Elinu Brotherus, Elizabeth Opalenik, Neal Rantoul, Jeniu Fridlyand, Daniel Reuter og David W. Lewis. Hún hefur haldið einkasýningar og samsýningar á ljósmyndum sínum og selt þær víða um lönd, meðal annars til Japan, Kanada og Bandaríkjanna.

www.christinegisla.com

Jóna Þorvaldsdóttir lærði ljósmyndun hjá Marian Schmidt og Izabela Jaroszewska í Ljósmyndaskólanum í Varsjá í Póllandi. Hún hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Póllandi og í Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölmörgum vinnustofum hérlendis og erlendis og staðið sjálf að vinnustofum með David W. Lewis í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Elizabeth Opalenik í samvinnu við BÆ listasetur á Höfðaströnd. Ljósmyndir hennar eru m.a. í eigu Ljósmyndasafns Íslands og Hafnarborgar.

www.jonath.is

Katrín Gísladóttir (Katra) hefur verið að vinna í leir frá árinu 1994 en vinnur einnig með gler, járn og hrosshár sem hún tvinnar saman í einstök verk. Hún hefur sótt fjölda myndlistarnámskeiða og lokið nokkrum önnum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þáttaskil urðu árið 2007 þegar hún sótti námskeið í rakú-brennslu í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Katra hefur tekið þátt í samsýningum, m.a. í Listasafni Árnesinga, og vinnur nú í teymi Art67 á Laugarvegi þar sem verkin hennar eru til sölu.

www.katra.is

Spennandi sýning sem vert er að kíkja á en sýningin stendur til 28.febrúar.


Verk á sýningunni eftir Christine Gísla

Verk eftir Jónu Þorvalds á sýningnni

Katrín Gísladóttir (Katra) vinnur verk sín í leir.

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

MUTT er nýtt gallerí sem opnaði á Laugarveginum í desember síðastliðinn og er rekið af Júlíu Marinósdóttur. Júlía er menntuð í Listfræði frá Háskóla Íslands og tók síðan Master í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Júlía segist ekki vera listakona sjálf en hefur þó verið viðloðandi listum og áður en hún réðst í það að opna sitt eigið gallerí starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Listasafni Íslands.

“Fyrsta sýning MUTT var vídeóinnsetningin Hugvarp eftir Harald Karlsson og fór upp í desember. Það var gluggasýning í skammdeginu en þann 15. janúar opnaði ég dyrnar með sýningu Úlfs Karlssonar, 2+2=5,” segir Júlía. Sýningin hefur fengið góð viðbrögð síðan hún fór af stað enda er Úlfur öflugur listamaður og boðberi ákveðinnar kynslóðar.” 

Hvers vegna þessi tímasetning?

“Fyrir mér er þetta rétti tíminn til að fara út í atvinnurekstur en ég hef alltaf vitað að það ætti vel við mig. Ég á tvö börn sem eru 16 og 24 ára og hef góðan tíma núna til að einbeita mér að þessu verkefni, sem má segja er pínulítið barnið mitt, segir Júlía og brosir. Ég hef verið spurð út í þessa tímasetningu, út af kóvid, en fyrir utan að vera svolítið hvatvís, finnst mér einmitt rétti tíminn að grípa tækifærin þegar það er niðursveifla því ég lít á það sem tímabundið ástand og þá er gott að vera komin af stað þegar allt fer á fullt” segir Júlía sannfærandi.

Ögrandi listform heillandi

Júlía er spurð hvort hún eigi sér uppáhalds listamann. “Það er erfitt að sigta út einn sem uppáhalds, íslenskan eða erlendan. Þeir eru margir sem standa upp úr en list sem ögrar viðteknum venjum, áliti eða hugsun hefur alltaf heillað mig. Margar liststefnur sem brutust fram gerðu einmitt það, þær komu sem andstaða við fyrri stefnu og buðu upp á nýja hugsun, nýja nálgun. Ég held að fólk laðist að verkum hjá ákveðnum listamönnum af því það finnur samhljóm hvort sem hann er fagurfræðilegur, tilfinningalegur eða andlegur. Verkin tala til manns á ákveðinn hátt sem er ekki hægt að útskýra, segir Júlía.

“Fyrir mér verða þau að fela í sér sannleik, sem er kannski ekki sá sami hjá öðrum en hann tengist þessum samhljómi. Stundum er það svona aha! móment og stundum er það tenging við eitthvað hið innra en það hefur alltaf einhverja persónulega þýðingu”

Alþýðugallerí með nafn sem vísar í skemmtilega sögu

“MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917. Hann sendi inn klósettskál snúið á hlið áritað R. Mutt undir dulnefni til Sambands Sjálfstæðra Listamanna sem hann tók þátt í að stofna og nefndi verkið Gosbrunnur (Fountain). Sambandið hafði bundið sig til að samþykkja allar umsóknir meðlima svo þetta hristi almennilega upp í öllum og nýtt samtal um skilgreiningu á list varð til. Út frá þessu spruttu upp stefnur sem mótuðu síðan list 20. aldar. Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtileg og markverð saga en þetta var örútgáfan af henni og nafnið sem úr ensku þýðir blendings hundur og vitleysingur finnst mér líka passa vel inn í þá mynd að MUTT er alþýðulegt og þykist ekki vera eitthvað,” segir Júlía.

Sýningarstefna sem felur í sér fjölbreytni

“Sýningarstefnan tekur mið af því að opna sýningar með listamönnum sem vinna í mismunandi miðlum og þannig styðja við fjölbreytni í sýningarhaldi. Áhersla er lögð á að ná að sýna það sem er áhugavert og á erindi í samtímann hverju sinni. Framundan eru spennandi tímar, árið er að raðast saman og næst verður sýning á verkum eftir listakonuna Shu Yi sem vinnur með tímann og augnablikið í verkum sínum. Sýningin opnar 26. febrúar 2021” segir Júlía að lokum.

Hér fyrir neðan er að finna linka inná samfélagsmiðla MUTT gallerí.


Nú stendur yfir sýning á verkum Úlfs Karlssonar, 2+2=5.

Júlía Marinósdóttir eigandi MUTT gallerís.

Úlfur Karlsson 2+2=5

MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917 sem var svokallað readymade verk.

muttgalleri.is

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur er samsýning þriggja litstakvenna, þeirra Auðar Vésteinsdóttur, Elísabetar Haraldsdóttur og Sigríðar Ágústsdóttur opnaði í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 21. janúar.

Listakonurnar eiga það sameiginlegt að nýta sér miðla handverks og nytjalistar við sköpun einstakra listaverka með aðferðum leirlistar og listvefnaðar. Allar eiga þær að baki langan listferil og búa yfir áralangri reynslu og þekkingu á efniviðnum og möguleikum hans. Listakonurnar segja sögur með náttúrulegum efnivið eins og ull, hör, jarðleir og postulíni, sem hefur vísun í jörð, náttúru og landslag. Líkt og í náttúrunni geta óvæntir hlutir gerst í vinnuferlinu og útkoman er ekki alltaf fyrirséð. Fyrirbæri náttúrunnar samlagast efninu í myndvefnaði Auðar og leirverkum Elísabetar og Sigríðar þar til fullkomið samband næst milli hugar og handar segir í texta á viðburði sýningarinnar á Facebook.

Sýningarstjóri sýningunnar er Aðalheiður Valgeirsdóttir, sem hafði þetta að segja þegar Innlit hafði samband við hana.

“Listkonurnar leituðu til mín fyrir nokkrum mánuðum og báðu mig að taka að mér sýningarstjórn sem mér leist strax vel á enda þekkti ég nokkuð vel verkin þeirra. Sjálf er ég myndlistarmaður og listfræðingur. Ég vildi strax tengja sýninguna við jörð og náttúru og þannig kom nafnið Jarðsögur til. Þær vinna allar með náttúruleg efni og viðfangsefnið hefur beina tengingu við náttúru og landslag. Við uppsetningu sýningarinnar legg ég áherslu á að verkin njóti sín vel í salnum og að það sé jafnvægi innbirðis. Verkin ganga mjög vel saman þó þau séu ólík. Mér finnst mikilvægt að sýna fjölbreytta list og sýning eins og þessi vekur vonandi athygli á þessum gömlu miðlum listvefnaði og leirlist. Allar eiga listakonurnar að baki langan listferil og búa yfir mikilli þekkingu á möguleikum miðilanna.”

Sýningin stendur yfir til 13.febrúar næst komandi og er staðsett í Gallerí Gróttu, allar upplýsingar er að finna á Facebook link hér fyrir neðan.

 


 

Verk Elísarbetu Haraldsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Verk eftir Sigríði Ágústsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Á sýningunni eru listaverk með aðferðum leirlistar og listvefnaðar.

Listakonurnar þrjár, Auður Vésteinsdóttir, Elísabet Haraldsdóttir og Sigriður Ágústsdóttir.

Verk Auðar Vésteinsdóttur sem unnin eru með aðferðum listvefnaðar.

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Íris Huld Guðmundsdóttir

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk Jóhannsdóttir er þrítug, gift, þriggja barna móðir og uppalið borgarbarn sem segist vera í smábæjarþjálfun í Grindavík. Katrín segist einnig vera algjört meðalljón þegar kemur að húsfreyjustöfum og að ritstörfin eigi mun betur við hana.
Ég hitti hana í Elliðadal ásamt börnunum hennar þremur og smellti nokkrum myndum af þeim saman enda eiga, að hennar eigin sögn, börnin stóran þátt í skrifum hennar. Katrín ber það augljóslega með sér að vera glaðlind og hvatvís. En í spjalli okkar um daginn og veginn sagðist hún vera mjög hvatvís manneskja að eðlisfari en taldi hún það jafnframt vera einn af sínum bestu kostum og eflaust væri hún ekki þar sem hún er stödd í dag ef það væri ekki fyrir þessa skemmtulegu hvatvísi.

Katrín segist hafa skrifað mikið sem barn, bæði sögur og ljóð og að það hefði verið hennar fyrsti og stærsti draumur að verða rithöfundur. En það var samt ekki fyrr en nýverið að hún áttaði sig á því að hún lifir í rauninni þeim draumi.

“Ég hef alltaf vitað að ég vildi reka mitt eigið fyrirtæki og stofnaði ég þó nokkur sem barn ásamt vinkonum mínum sem létu alls konar hugmyndir eftir mér, má þar nefna glasaskreytingaþjónustu fyrir matarboð nágrannanna, video-leigu í tjaldi, en aðeins bróðir minn verslaði við okkur og á enn eftir að greiða reikningin og hundagöngu” segir Katrín og hlær. “Það gleður mig því mjög að eiga Óskar-Brunn útgáfu en það er vettvangur fyrir mínar bækur, vörur sem eru tengdar þeim og allt annað sem mér dettur í hug að skapa! Þetta haust var besti tíminn til þess að stökkva út í þessa laug en ég hafði nægan tíma eftir að hafa misst vinnuna vegna fröken kórónu” segir Katrín.

Skrifaði bók ætlaða börnum með skilaboðum hvað er mikilvægast í lífinu
“Mömmugull bókin er algjörlega “platínan” mín, þó að Karólína könguló sé auðvitað ofboðslega krúttleg, litrík og skemmtileg. Ég er svo stolt af Mömmugull bókinni og hún á svo sérstakan stað í hjarta mínu en persónan er teiknuð upp eftir lýsingu á dóttur minni og svo hef ég ætíð kallað börnin mín Mömmugull.” Katrín segist hafa skrifað bókina því hana langaði að koma þeim skilaboðum á framfæri til barna að það skiptir ekki máli þó að þau eigi ekki það nýjasta, stærsta, dýrasta og besta af öllu.

“Það sem skiptir mestu máli er að eiga góða fjölskyldu og góða vini. Það er lífsins dýrmætasti fjársjóður og gefur okkur mesta ríkidæmið.”

Við búum í hröðum heimi sem staldrar sjaldan við, það þýðir að það er stöðugt streymi af nýjum vörum sem allar eiga að vera betri en sú síðasta. Okkar samfélag hér á Íslandi hefur svo í gegnum tíðina verið uppfullt af samkeppni og fólk stöðugt í samanburði en það er svo mikill streituvaldur. Mér þykir alltaf svo leitt að heyra af atvikum þar sem börn hafa t.d. lent í stríðni fyrir það eitt að eiga ekki nýjasta Iphone símann eða klæðast ekki merkjavörum. Ég vona að gildi Mömmugulls muni hafa áhrif á hugarfar lesenda og festa sig í minni barnanna sem taka það með sér inn í framtíðina” segir Katrín.

“Bókin mun svo fá tækifæri til þess að gera það sama úti í Ameríku, en ensk útgáfa af Mömmugulli kemur út þar á þessu ári undir heitinu “Mommy’s treasure”. Það var stór sigur fyrir mig að fá þann samning og sannaði enn betur fyrir mér hversu dásamleg bókin er, þó ég segji sjálf frá” segir Katrín frá.

Næst á dagskrá hjá Katrínu er að kynna fyrir þjóðinni nýju bókina sína “Ef ég væri ofurhetja” sem er einlæg bók sem beinir sjónum skólabarna að þeim skólasystkinum sem eiga erfitt. Ekki vegna eineltis eða stríðni, heldur vegna skorts á sjálfsöryggi sem veldur því að þau ná ekki tengingu við önnur börn.

“Ég skrifaði þá sögu því þetta er svo algengt, en oft mjög ósýnilegt. Einelti fær iðulega stærra sviðsljós og það er mikilvægt að sú vinna sem unnin er gegn einelti haldi áfram, en önnur félagsleg vandamál mega ekki týnast alveg bak við þykku sviðstjöldin” segir Katrín. “Það má segja að ég fái innblástur frá börnunum mínum, en ekki endilega því sem þau segja og gera. Ég hugsa um hvernig heim, umhverfi, samfélagi og menningu ég sjálf vil að þau alist upp í og upplifi. Hvernig hugsunarhátt vil ég að þau hafi og fái frá öðrum” segir Katrín með sannfæringu.

“Ef ég væri ofurhetja beinir ljósi á félagslegt vandamál sem fáir átta sig á að sé til, sérstaklega börn. Einelti fær yfirleitt meira sviðsljós, enda stórt vandamál, en svona félagsleg forðun og einangrun virðist stundum gleymast og kannski ekki talið vera raunverulegt vandamál af því að það er ekki sýnileg stríðni og enginn að gera á hlut þessarra barna” segir Katrín alvarleg.

“Ég trúi á mikilvægi sögunnar, sem ég lofa að er líka skemmtileg og framkallar bros! 
Ég vona að lesendur taki henni opnum örmum og að með hverju barni sem les bókina, fæðist ofurhetja. Það læddist að vísu mjög spennandi leyniverkefni með í þessarri sendingu sem ég hef stór áform fyrir og er yfir mig spennt fyrir. En það er svo ótrúlega mikilvægt og áhrifamikið verkefni að það á skilið sína eigin umfjöllun, svo þið verðið bara að splæsa í annað samtal við mig! Segir Katrín að lokum og hlær.

Það er virkilega gaman að fylgjast með hvað þessi unga kona er skapandi & mikill frumkvöðull og bíðum við spennt eftir því sem framundan er hjá Katrínu Ósk.

 

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um bækur Katrínar inn á vefsíðu hennar www.oskarbrunnur.is einnig er hægt að versla bækur hennar í verslunum Pennans.
 

Feðginin Haukur og Gunnhildur gerðu saman spáspilið Yggdrasil

Feðginin Haukur og Gunnhildur gerðu saman spáspilið Yggdrasil

Feðginin Haukur og Gunnhildur gerðu saman spáspilið Yggdrasil

Þegar nýtt ár gengur í garð þá förum við gjarnan að velta framtíðinni fyrir okkur og komandi ári með væntingum og vonum. Áramótaheit þekkjum við flest og höfum eflaust einhvern tímann sett okkur slík, svo getur líka verið skemmtilegt við tímamót sem þessi að spá í spilin. En íslensk spáspil, Yggdrasil, byggð á norrænni goðafræði hafa unnið til tveggja verðlauna hjá International Tarot Foundation. Á bak við spilin standa feðginin Haukur Halldórsson listamaður og Gunnhildur Hauksdóttir myndlistarkona.

Yggdrasil spilin eru þó ekki tarotspil sem slík heldur flokkast sem spáspil en Haukur Halldórsson listamaður á heiðurinn að tilurð þeirra. Haukur hefur í áratugi myndgert guði og vætti úr norrænni goðafræði sem og íslenskri þjóðtrú en við gerð spilastokksins fékk hann dóttur sína, Gunnhildi sem er myndlistakona, til liðs við sig. Gunnhildur samdi og skrifaði handbókina sem fylgir stokknum, ljáði myndunum merkingu og bjó til spákerfi spilanna, svokallaða Yggdrasil lögn.

 Feðginin aðhyllast bæði ásatrú. “Verkin mín hafa sótt innblástur í goðafræðina og þjóðtrú síðan Gunnhildur var lítil, hún er alin upp í þessu, heiðnin var alltaf nálæg. Myndirnar sem prýða spilin eru unnar yfir langt tímabil„ segir Haukur.

Sveinbjörn Beinteinsson Alsherjargoði sem endurvakti íslenska heiðni á áttunda áratug síðustu aldar var heimilisvinur. “Hann eyddi oft jólunum hjá okkur og við eyddum sumrum hjá honum að hjálpa til við sauðburð og heyskap” segir Haukur og bætir við að Sveinbjörn hafi verið mikill áhrifavaldur í lífi þeirra. “Hann kenndi mér að kveða og þekkja íslenskar jurtir þegar ég var lítil” bætir Gunnhildur við. 

„Við erum ofsalega kát með móttöku spilanna og þykir heiður sýndur að vera í svona góðum félagsskap í tilnefningum” en þetta samstarfsverkefni feðginanna er það fyrsta sem þau vinna saman. „Pabbi leiðbeindi mér og sendi mér lesefni við skriftirnar, en goðafræðin er svo marglaga í merkinga- og táknheimi að handbókin skrifaði sig eiginlega sjálf“ bætir hún við.

 

„Við erum ofsalega kát með móttöku spilanna og þykir heiður sýndur að vera í svona góðum félagsskap í tilnefningum“

Spilin eiga rætur sínar til heimsmyndar Eddukvæðanna og hinna níu heima sem sitja í greinum og við rætur Yggdrasils. Í stokknum eru 81 spil, níu spil fyrir hvern af níu heimum Eddunar og Yggdrasil, lögnin er byggð á því hvernig heimarnir sitja í trénu og þeirri merkingu sem hver heimur gefur. Einnig má nota spilin á fjölbreyttan hátt og leggja þau samkvæmt eigin hyggjuviti „margir notendur nota rúnir með spilunum“ segir Gunnhildur.

Hér að neðan er myndband þar sem Gunnhildur sýnir hvernig hún leggur spilin:

Eins og fyrr segir hlutu spilin verðlaun hjá International Tarot Foundation. Spilin komu út á ensku hjá útgefandanum Llewellyn Worldwide í júlí 2019 og hafa selst feikna vel sérstaklega í Bandaríkjunum. Þýðingarsamningar voru gerðir á þessu ári við Rússland og Frakkland og bókin kom út á Rússnesku hjá Eksmo í Moskvu í október.

Myndirnar tók Cormac Walsh. Á Íslandi eru spilin fáanleg hjá Pennanum Eymundsson, Betra Líf í Kringlunni. 

Senda listina heim að dyrum

Senda listina heim að dyrum

Senda listina heim að dyrum

Ásdís Spanó og Helga Óskarsdóttir reka saman fyrirtækið MULTIS sem selur myndlist eftir íslenskt samtímalistafólk. Þær hafa báðar verið tengdar íslenskri myndlistarsenu í langan tíma og upplifðu þær ákveðna vöntun á fjölbreyttari nálgun í kynningu og sölu listaverka á markaðinum. Í dag eru fáir að selja samtímalist á Íslandi þó staðan sé vissulega að batna með auknum áhuga og þekkingu en ennþá er það svo að fólk veit oft ekki hvert það á að snúa sér þegar það vill kaupa listaverk. Ásdís og Helga hafa báðar sérstakan áhuga á svokölluðum fjölfeldum eða upplagsverkum en lögmálið með þau verk er að þau eru gerð í upplagi, fleiri en þrjú er miðað við til að verk geti fallið í þennan flokk. Verkin eru síðan árituð og tölusett út frá þeim fjölda sem þau eru búin til í.

Innlit biður þær að útskýra hugmyndafræði Multis fyrir okkur. “Þegar verk er gert í upplagi hafa fleiri tækifæri á að njóta þess og eignast,  er það oft á hagstæðara verði en einstök verk, einnig hafa margir safnarar áhuga á slíkum verkum og eru þá gjarnan með sitt uppáhalds númer, sem þeir sækjast eftir að kaupa. Þar sem við höfum leitast við að bjóða upp á nýjan vettvang fyrir kaupendur þá sáum við tækifæri í því að bjóða til sölu upplagsverk eftir viðurkennda samtímalistamenn.

Við vildum búa til vettvang fyrir fólk til þess að kynna sér og fjárfesta í myndlist nútímans. Einnig er áhersla á að skapa tækifæri fyrir myndlistarmenn til þess að selja verkin sín en við vinnum með listamönnum á öllum aldri, sá yngsti sem á verk hjá okkur er fæddur 1993 og þykir okkur einnig sérstakur heiður að fá að vinna með eldri höfðingjum í bransanum.  Það sem ræður vali okkar á samstarfsfólki er að okkur finnist viðkomandi spennandi sem listarmaður og einhver sem áhugavert er að vinna með.

„Við vildum búa til vettvang fyrir fólk til þess að kynna sér og fjárfesta í myndlist nútímans. Einnig er áhersla á að skapa tækifæri fyrir myndlistarmenn til þess að selja verkin sín en við vinnum með listamönnum á öllum aldri, sá yngsti sem á verk hjá okkur er fæddur 1993 og þykir okkur einnig sérstakur heiður að fá að vinna með eldri höfðingjum í bransanum.”

MULTIS hefur verið starfrækt frá því í maí 2019 og var vefurinn multis.is opnaður við það tækifæri en þetta er enn sem komið er fyrst og fremst vettvangur á netinu, vefgallerí en það er einmitt mjög þægilegt á þessum tímum þar sem fólk kann að meta að geta skoðað listina í tölvunni og að þau sem vilja kaupa verk fá það heim að dyrum. Þannig er hægt að miðla listinni til sem flestra og inn á sem flest heimili. Multis.is er eini vettvangurinn á Íslandi sem býður upp á sýningarstýrð upplagsverk á þennan hátt og beinan aðgang að verkum þekkts listafólks.

Svipmynd frá fyrsta útgáfuhófi MULTIS en það var haldin í anddyri nýbyggingar við Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur.

Á tímum þar sem ekki eru fjöldatakmarkanir eru haldin útgáfuhóf til að fagna nýjum verkum sem gerð hafa verið í samstarfi við Multis og hafa þær valið mismunandi staðsetningar. Er gaman að segja frá því að fyrsta útgáfuhófið var haldið í anddyri nýbyggingar í miðbæ Reykjavíkur.

Önnur útgáfa var kynnt í verslunarrými á Hljómalindarreitnum (fyrrum Hjartagarður). Þar hafði Multis aðsetur yfir tveggja mánaða skeið.

Síðan þá hafa hófin verið á mismunandi stöðum eins og verslunarrými við Hjartatorg og skrifstofurými á Snorrabraut. Hefur það verið hluti af stefnu og stemningu Multis að vera með létta yfirbyggingu og fjölbreytni í framsetningu útgáfunnar.

Þriðja útgáfuhófið var kvennaboð í tilefni 19. júní sem er Kvennafrídagurinn en það var haldið í Mjólkurstöðinni við Snorrabraut. Á myndinni eru listamennirnir þær Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir en saman eru þær Gjörningaklúbburinn. 

En hvað eru fjölfeldi?

Við fáum þær til að útskýra betur fyrir okkur hvað fjölfeldi eða upplagsverk eru. Helga tekur til máls. „Þrjú eða fleiri sams konar listaverk kallast fjölfeldi, upplagsverk eða art editions. Listamaðurinn ákveður upplag, fjölda verka, númerar þau og áritar.  Geta verkin verið ýmist tví- eða þrívíð og eru grafíkprent til dæmis upplagsverk. Sama verkið er gert aftur og aftur.

Ásdís tekur við „Sú hugmynd að framleiða fleiri en eitt eintak af sama listaverki og selja almenningi hefur tíðkast í gegnum aldirnar.  Sú uppgötvun listamannsins að geta prentað fleira en eitt eintak af sama verki átti sér stað á fimmtándu öld en þá þótti mikill kostur að getað dreift verkum sem víðast en sú þróun varð til þess að sjónræn menning efldist til muna í þeim löndum sem sú þekking var til staðar.”

Þær bæta við að tilvalið sé fyrir safnara og listáhugafólk, einnig þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að safna samtímalist að kíkja inn á síðuna multis.is og jafnvel fjárfesta í verki eftir þekktan núlifandi listamann því þar sé úrval af listaverkum á viðráðanlegu verði. Algengt er að þeir sem eru að byrja að safna horfi til eldri og oft látina listamanna og horfi hreinlega fram hjá því sem er nýtt og “að gerast.” Við leggjum áherslu á að listamennirnir sem við störfum með séu með áhugaverða tengingu við samtímann og þann tíðaranda sem einkennir alþjóðlega samtímalist í dag.

Þær Ásdís og Helga sinna einnig ráðgjöf við val, kaup og upphengi á listaverkum og vilja þær meina að lykillinn að því að taka sín fyrstu skref við kaup á myndlist sé að gefa sér tíma, skoða það sem vekur áhuga og fá ráðgjöf um hvað gæti hentað viðkomandi best.

Innlit þakkar þeim Ásdísi og Helgu fyrir spjallið og vill hvetja lesendur sína til að líta við á vefsíðunni multis.is, skrá sig á póstlistann, gerast vinur þeirra á samfélagsmiðlum og láta sjá sig í útgáfuhóf þegar fjöldatakmörkunum lýkur.

 


Til að fá frekari upplýsingar um MULTIS: multis.is, Facebook og Instagram 

 


Hér eru myndum af nokkrum verkum sem MULTIS selur á vefsíðunni multis.is. Þetta eru bara örfá dæmi um úrvalið en á vefsíðunni eru alls 28 verk og fer fjölgandi.

Vefsíða: multis.is