Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla rekur hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og heldur úti vefsíðunni www.artless.is þar sem hún selur sína fallegu hönnun. Innlit var að skrolla á Instagram, eins og svo oft áður, í leit að skemmtilegum viðmælendum þegar hún rakst á reikninginn hennar Heiðdísar Höllu. Við fengum að senda á hana nokkrar spurningar og hér situr hún fyrir svörum.

Hver er Heiðdís Halla?

„Ég er helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu. Ég er fljótfær með fullkomnunaráráttu. Mamma segir að ég sé „fegurðarsjúklingur”, það er líklega rétt hjá henni. Ég trúi því að maður eigi að gera það sem mann langar, fylgja hjartanu, það gerir það enginn fyrir mann þó svo gott fólk geti stutt mann áfram,” segir Heiðdís og heldur áfram.

„Ég er uppalin á Egilsstöðum, farin að heiman sextán ára með fiðrildi í maganum. Hef búið síðan á Akureyri, í París, Kaupmannahöfn, Reykjavík, og er nýlega flutt aftur heim í faðm fjölskyldunnar á Egilsstöðum og verð hér þangað til annað kemur í ljós.

Ég hef tekið að mér allskonar verkefni og hef unnið á mörgum stöðum. Flugfreyja, þjónustufulltrúi í banka, hótelstýra, ræstitæknir, afgreiðsludama í sjoppu og verslunarstjóri í tískubúð, kennari svo eitthvað sé nefnt. En ég er með stúdentspróf af málabraut Menntaskólans á Akureyri, með BA próf í frönsku og diplóma í kennslufræði. Ég elska að kenna. Ég er líka menntaður grafískur hönnuður. Ástríða mín er að skapa og hanna. Ég held að minn kaótíski lífstíll og stefna hafi gefið mér skilning og næmni á alls konar fyrirbæri og fólk sem nýtist mér í minni sköpun,” segir Heiðdís.

„Í dag rek ég mitt eigið hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og vefverslunina www.artless.is þar sem ég sel mína eigin hönnun.“

Segðu okkur frá artless:

„artless er vörumerkið mitt. Ég valdi nafnið þegar ég ákvað að opna vefverslun með minni eign hönnun. Mig langaði að skapa eigið nafn/vörumerki án þess að hafa eiginnafnið mitt á öllu og á bak við allt. Ég er með fullt af hugmyndum um hvert ég vil fara með vefverslunina og ætla mér að þróa hana áfram.

Mér fannst enska orðið artless ná vel utan um vörumerkið og  hönnun mína. Artless þýðir í raun; laus við tilgerð, einfalt, náttúrulegt en það getur líka þýtt laust við list og mér finnst það kallast skemmtilega á við að ég vinn flest mín verk í tölvu.“

Þegar Heiðdís Halla byrjaði í myndlistarskólanum á Akureyri var hún fyrst skráð í fagurlistadeild en fann fljótlega að önnur deild heillaði hana meira: „Ég byrjaði í fagurlistadeild en eftir einhverja mánuði fann ég mjög sterkt að ég var ekki endilega á réttum stað og fékk að skipta yfir í grafíska hönnun sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég fann það strax að ég hafði breytt rétt og hef alltaf verið sátt við að hafa skipt milli deilda. En það er svolítið undarlegt að í grafískri hönnun leitast ég mest í að skapa list, og nálgun mín er líklega blönduð nálgun af grafík og list.”


Ljósmynd/Sigga Ella

Heiðdís Halla opnaði artless.is á afmælisdaginn sinn, 4. september 2020, svo vefverslunin er ekki orðin ársgömul: „Móttökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og gefið mér byr undir báða vængi til að halda áfram að skapa, hlusta á innsæið og framkvæma. Maður á að framkvæma ef mann langar til þess. Maður þarf að bera virðingu fyrir ferlinu og leyfa hlutunum að þróast. Ég er rosalega óþolinmóð og ég vil alltaf gera allt strax en ég er orðin betri í að muna að góðir hlutir gerast hægt. Ég er með margar hugmyndir og mörg járn í eldinum en ætla að leyfa mér að hafa tímalínuna á mínum forsendum þar sem ég sé um allt sjálf innan fyrirtækisins, nema að ég er reyndar með bókara í vinnu sem sér um pappírana, annars væri allt í rugli,” segir Heiðdís Halla og hlær.

Hvað veitir þér innblástur í þinni hönnun?

“Ég held að ég sé alltaf að leita að innblæstri og ég horfi og pæli mikið í litum og litasametningum. Ég tek myndir af áhugaverðum litasamsetningum, fjöllum og því sem vekur áhuga minn hverju sinni og styðst oft við þær myndir ef mig vantar kraft eða innblástur. Ég les mikið af hönnunarblöðum og skoða hönnunarsíður á netinu og er voða mikið með hausinn stilltan á innblásturs- og hugmyndaleit alla daga. Ég elska líka að keyra ein. Bara keyra og horfa. Þá koma oft hugmyndirnar bara sjálfkrafa til mín.”

Upplifir þú það hamlandi eða styrkjandi að koma hönnun þinni og verkum á framfæri búandi í litlu bæjarfélagi út á landi?

„Þetta er frábær spurning. Nefnilega bæði! Það er klárlega jákvæðni og kraftur sem ég fæ frá fólkinu í kringum mig hér úti á landi og fólk er mjög reiðubúið til að aðstoða og styðja mig og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég vil líka nýta þá þjónustu sem er í boði á svæðinu við framleiðslu á vörunum þá er ég að  hugsa um vistsporið sem framleiðslunni og flutningunum fylgir og um að styrkja atvinnulífið á svæðinu,“ segir Heiðdís Halla.

„En það er nú bara þannig að ég fæ ekki næstum því allt sem mig vantar hér. Hvorki þjónustu né hráefni og því þarf ég að sækja margt til Reykjavíkur eða Akureyrar. Það er líka mjög dýrt að fá hluti senda og þegar ég kaupi textíl, plakathólka, sérstakan pappír, prentun á ál og allskonar þjónustu. Kostnaðurinn er alltaf miklu hærri út af flutningskostnaði sem hægt væri að sleppa við ef ég byggi í Reykjavík. Það munar helling. Þar að auki get ég ekki skotist með pakkana sjálf í heimkeyrslu í borginni, en þangað fara langflestar vörurnar, allt fer með póstinum suður. Stundum þarf ég líka að leggja allt mitt traust á einhvern í símanum sem segir mér hvernig eitthvað muni koma út eða muni virka og svo vona ég bara það besta, það getur líka verið dýrt spaug þó það gangi líka oft upp. Ég þarf að vera þolinmóð og anda því hlutirnir taka bara hreinlega lengri tíma vegna alls konar flækjustiga. En ég er orðin sjóuð í að gera lista og gjörnýti allar mínar ferðir til að skoða og ná í það sem mig vantar. Þannig að þessi frábæra spurning er með allskonar svör. Ég gæti eflaust framkvæmt hraðar og meira ef ég byggi enn í borginni. Það þýðir ekkert að hugsa bara um það og gera ekkert. Maður nýtir það sem maður hefur og nær í hitt, þó það taki lengri tíma og sé dýrara, þá er það bara það sem þarf að gera til að framkvæma það sem mann langar til!” segir Heiðdís Halla að lokum.

Ljósmyndir Auðunn Nilsson og í einkaeigu.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður Artless.

 

 
“Útför á sólarströnd” í MUTT á Laugavegi-Sýning Almars Steins Atlasonar

“Útför á sólarströnd” í MUTT á Laugavegi-Sýning Almars Steins Atlasonar

“Útför á sólarströnd” í MUTT á Laugavegi-Sýning Almars Steins Atlasonar

Fyrir nokkrum árum strauk Almar úr meðferð og fór rakleiðis til eyjarinnar La Réunion í Indlandshafi og bjó þar í hálft ár. Þar var hann í sendibíl og fékkst við málverk, fegurð og sorg. Í því sem Almar lýsir sem brjálæðislegri tjáningarþrá og af yfirgengilegu skilningsleysi uðru verkin til.

Óreiða sem einkennir mörg verkanna við fyrstu sýn er vandlega uppbyggð og stærðfræðilega útreiknuð. Innri óreiða og brestir opinberast í verkunum með hráum krafti þar sem þau leitast við að sýna okkur óþægilega en fallega tilvist á heiðarlegan hátt. „Ég var að reyna að tjá upplifun af kaotískum heimi á skipulagðan máta. Það var mission-ið. Ég ætlaði að finna fagurfræðina sem er í hellamálverkum, barnateikningum og innblásnum ræðum þeirra sem hafa einungis yfirborðsþekkingu á umræðuefninu en hafa til að bera þess betra skap og eru jafnvel aðeins neðan í því. Svo strauk ég úr meðferð og flutti til Réunion. Þar, undir pálmatrjánum lærði ég að mála upp á nýtt. Mín skoðun er sú að við verðum fyrir svo tryllingslegum áhrifum og áreiti á hverjum degi að það sé enginn möguleiki að einu sinni gróf flokka það, hvað þá vinna úr því. En ég trúi á vinnu og mest trúi ég á erfiðisvinnu. Ef ég vinn og vinn og mála og mála allan daginn alla daga þá get ég kannski komist nálægt því að tjá einhver smá brot úr þeim tryllingslega innblæstri sem er fólginn, einfaldlega í því, að vera manneskja á lífi.“

Útför á sólarströnd vísar til þess að sjálfsmorðinginn jarðar sjálfan sig á hverjum degi, hundrað sinnum, í huganum.

“Af hverju að gera það einhversstaðar sem er svona kalt og glatað og dýrt að
kaupa vín? Af hverju ekki að halda glæsilega partý jarðarför sjálfum sér til heiðurs í þrjátíu
gráðu hita hvert kvöld? Ef þú reglulega endurfæðist í hverju málverki, hverju vatnsblönduðu
rommglasi, hverri nutella matskeið fyrir næringu, hverri nýrri sól og hverjum saltblautum vindling.
Þá er lífið bara löng jarðarför. Og ég hef ekki einu sinni almennilega jafnað mig á minni fyrstu
fæðingu,” segir Almar.

Almar Steinn Atlason útskrifaðist með BA í myndlist úr Listaháskóla Íslands 2018. Gjörningar hans hafa vakið athygli á undanförnum árum en mest hefur hann þó fengist við málverk. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis en þetta er önnur einkasýning hans þar sem hann sýnir málverk.

Sýning stendur nú yfir á verkum Almars í Gallery Mutt á Laugarvegi. Sýningin stendur til 16. maí næst komandi. Nánari upplýsingar er að finna í link fyrir neðan myndirnar sem vísar inná heimasíðu og samfélagsmiðla Gallery Mutt.

 
Athugið, athugið sýning Ásgeirs Skúlasonar í Norr11

Athugið, athugið sýning Ásgeirs Skúlasonar í Norr11

Athugið, athugið sýning Ásgeirs Skúlasonar í Norr11

Ný myndlistarsýning opnaði á vegum Listvals á dögunum í Norr11 Hverfisgötu 18 með verkum eftir Ásgeir Skúlason. Sýningin heitir Athygið athugið og sýnir Ásgeir ofin textílverk þar sem hann notar krullubönd sem flestir þekkja og eru notuð utan um gjafapakka. Hann notar þriggja ása aðferð svo úr verður ísometrískt munstur sem skapar þrívídd á tvívíðum fleti. Munstrið endurtekur sig út allan ramman og skapar sjónhverfingu. Hin verkin á sýningunni eru veggskúlptúrar gerðir úr teypi sem hann rúllar í óteljandi hringi. 

Verkin einkennast af þráhyggjukenndri endurtekningu þar sem Ásgeir leitast við að fanga athygli áhorfandans en titill sýningarinnar vísar einmitt í þessa þörf til að fanga athyglina, hvort sem það er í augnablik eða til lengri tíma. Verkin láta við fyrstu sýn lítið yfir sér en þegar nær er komið sekkur maður inn í myndflötinn.

Ásgeir Skúlason f. 1984 býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk fornámi við Myndlistarskólann í Reykjavík áður en hann hóf nám í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2013 með BA gráðu í myndlist.

Sýningin stendur til 10. maí og er í Norr11- Hverfisgötu 18.

Verkalista má nálgast á vefsíðu Listvals.

 

listval.is

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

VERA – Samsýning Christine Gísla, Jónu Þorvaldsdóttur og Katrín Gísladóttir/Katra á ljósmyndum og keramikskúlptúrum í Gallery Grásteini, Skólavörðustíg 4, Reykjavík.

Fimmtudaginn 4.febrúar kl.16.00 opna listakonurnar Christine Gísla, Jóna Þorvaldsdóttir og Katrín Gísladóttir/Katra sýninguna VERA í Gallery Grásteini, á Skólavörðustíg 4, sýningin er staðsett á efri hæð Gallery Grásteins. VERA er á dagskrá Vetrarhátíðar sem hefst 4.febrúar. Á sýningunni sýna þær Christine, Jóna og Katra ljósmyndir og keramikskúlptúra sem eru afrakstur átta mánaða samvinnu þar sem fléttast saman hugleiðingar um tilveruna, líðandi stund og til-veruna í kringum okkur. Allar vinna þær með abstrakt form, hver á sínum forsendum, svo úr verður skemmtileg samsetning ljósmynda og þrívíðra verka.

Sýningin VERA er hluti af Vetrarhátíð – Winter Lights Festival 2021 og verður opin alla daga frá 4. febrúar til 28. febrúar á opnunartíma Gallery Grásteins. 


 

Um listakonurnar þrjár

Christine Gísla útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í Reykjavík árið 2014 og hefur einnig notið leiðsagnar hjá þekktum ljósmyndurum á borð við Elinu Brotherus, Elizabeth Opalenik, Neal Rantoul, Jeniu Fridlyand, Daniel Reuter og David W. Lewis. Hún hefur haldið einkasýningar og samsýningar á ljósmyndum sínum og selt þær víða um lönd, meðal annars til Japan, Kanada og Bandaríkjanna.

www.christinegisla.com

Jóna Þorvaldsdóttir lærði ljósmyndun hjá Marian Schmidt og Izabela Jaroszewska í Ljósmyndaskólanum í Varsjá í Póllandi. Hún hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Póllandi og í Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölmörgum vinnustofum hérlendis og erlendis og staðið sjálf að vinnustofum með David W. Lewis í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Elizabeth Opalenik í samvinnu við BÆ listasetur á Höfðaströnd. Ljósmyndir hennar eru m.a. í eigu Ljósmyndasafns Íslands og Hafnarborgar.

www.jonath.is

Katrín Gísladóttir (Katra) hefur verið að vinna í leir frá árinu 1994 en vinnur einnig með gler, járn og hrosshár sem hún tvinnar saman í einstök verk. Hún hefur sótt fjölda myndlistarnámskeiða og lokið nokkrum önnum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þáttaskil urðu árið 2007 þegar hún sótti námskeið í rakú-brennslu í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Katra hefur tekið þátt í samsýningum, m.a. í Listasafni Árnesinga, og vinnur nú í teymi Art67 á Laugarvegi þar sem verkin hennar eru til sölu.

www.katra.is

Spennandi sýning sem vert er að kíkja á en sýningin stendur til 28.febrúar.


Verk á sýningunni eftir Christine Gísla

Verk eftir Jónu Þorvalds á sýningnni

Katrín Gísladóttir (Katra) vinnur verk sín í leir.

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

MUTT er nýtt gallerí sem opnaði á Laugarveginum í desember síðastliðinn og er rekið af Júlíu Marinósdóttur. Júlía er menntuð í Listfræði frá Háskóla Íslands og tók síðan Master í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Júlía segist ekki vera listakona sjálf en hefur þó verið viðloðandi listum og áður en hún réðst í það að opna sitt eigið gallerí starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Listasafni Íslands.

“Fyrsta sýning MUTT var vídeóinnsetningin Hugvarp eftir Harald Karlsson og fór upp í desember. Það var gluggasýning í skammdeginu en þann 15. janúar opnaði ég dyrnar með sýningu Úlfs Karlssonar, 2+2=5,” segir Júlía. Sýningin hefur fengið góð viðbrögð síðan hún fór af stað enda er Úlfur öflugur listamaður og boðberi ákveðinnar kynslóðar.” 

Hvers vegna þessi tímasetning?

“Fyrir mér er þetta rétti tíminn til að fara út í atvinnurekstur en ég hef alltaf vitað að það ætti vel við mig. Ég á tvö börn sem eru 16 og 24 ára og hef góðan tíma núna til að einbeita mér að þessu verkefni, sem má segja er pínulítið barnið mitt, segir Júlía og brosir. Ég hef verið spurð út í þessa tímasetningu, út af kóvid, en fyrir utan að vera svolítið hvatvís, finnst mér einmitt rétti tíminn að grípa tækifærin þegar það er niðursveifla því ég lít á það sem tímabundið ástand og þá er gott að vera komin af stað þegar allt fer á fullt” segir Júlía sannfærandi.

Ögrandi listform heillandi

Júlía er spurð hvort hún eigi sér uppáhalds listamann. “Það er erfitt að sigta út einn sem uppáhalds, íslenskan eða erlendan. Þeir eru margir sem standa upp úr en list sem ögrar viðteknum venjum, áliti eða hugsun hefur alltaf heillað mig. Margar liststefnur sem brutust fram gerðu einmitt það, þær komu sem andstaða við fyrri stefnu og buðu upp á nýja hugsun, nýja nálgun. Ég held að fólk laðist að verkum hjá ákveðnum listamönnum af því það finnur samhljóm hvort sem hann er fagurfræðilegur, tilfinningalegur eða andlegur. Verkin tala til manns á ákveðinn hátt sem er ekki hægt að útskýra, segir Júlía.

“Fyrir mér verða þau að fela í sér sannleik, sem er kannski ekki sá sami hjá öðrum en hann tengist þessum samhljómi. Stundum er það svona aha! móment og stundum er það tenging við eitthvað hið innra en það hefur alltaf einhverja persónulega þýðingu”

Alþýðugallerí með nafn sem vísar í skemmtilega sögu

“MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917. Hann sendi inn klósettskál snúið á hlið áritað R. Mutt undir dulnefni til Sambands Sjálfstæðra Listamanna sem hann tók þátt í að stofna og nefndi verkið Gosbrunnur (Fountain). Sambandið hafði bundið sig til að samþykkja allar umsóknir meðlima svo þetta hristi almennilega upp í öllum og nýtt samtal um skilgreiningu á list varð til. Út frá þessu spruttu upp stefnur sem mótuðu síðan list 20. aldar. Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtileg og markverð saga en þetta var örútgáfan af henni og nafnið sem úr ensku þýðir blendings hundur og vitleysingur finnst mér líka passa vel inn í þá mynd að MUTT er alþýðulegt og þykist ekki vera eitthvað,” segir Júlía.

Sýningarstefna sem felur í sér fjölbreytni

“Sýningarstefnan tekur mið af því að opna sýningar með listamönnum sem vinna í mismunandi miðlum og þannig styðja við fjölbreytni í sýningarhaldi. Áhersla er lögð á að ná að sýna það sem er áhugavert og á erindi í samtímann hverju sinni. Framundan eru spennandi tímar, árið er að raðast saman og næst verður sýning á verkum eftir listakonuna Shu Yi sem vinnur með tímann og augnablikið í verkum sínum. Sýningin opnar 26. febrúar 2021” segir Júlía að lokum.

Hér fyrir neðan er að finna linka inná samfélagsmiðla MUTT gallerí.


Nú stendur yfir sýning á verkum Úlfs Karlssonar, 2+2=5.

Júlía Marinósdóttir eigandi MUTT gallerís.

Úlfur Karlsson 2+2=5

MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917 sem var svokallað readymade verk.

muttgalleri.is

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur er samsýning þriggja litstakvenna, þeirra Auðar Vésteinsdóttur, Elísabetar Haraldsdóttur og Sigríðar Ágústsdóttur opnaði í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 21. janúar.

Listakonurnar eiga það sameiginlegt að nýta sér miðla handverks og nytjalistar við sköpun einstakra listaverka með aðferðum leirlistar og listvefnaðar. Allar eiga þær að baki langan listferil og búa yfir áralangri reynslu og þekkingu á efniviðnum og möguleikum hans. Listakonurnar segja sögur með náttúrulegum efnivið eins og ull, hör, jarðleir og postulíni, sem hefur vísun í jörð, náttúru og landslag. Líkt og í náttúrunni geta óvæntir hlutir gerst í vinnuferlinu og útkoman er ekki alltaf fyrirséð. Fyrirbæri náttúrunnar samlagast efninu í myndvefnaði Auðar og leirverkum Elísabetar og Sigríðar þar til fullkomið samband næst milli hugar og handar segir í texta á viðburði sýningarinnar á Facebook.

Sýningarstjóri sýningunnar er Aðalheiður Valgeirsdóttir, sem hafði þetta að segja þegar Innlit hafði samband við hana.

“Listkonurnar leituðu til mín fyrir nokkrum mánuðum og báðu mig að taka að mér sýningarstjórn sem mér leist strax vel á enda þekkti ég nokkuð vel verkin þeirra. Sjálf er ég myndlistarmaður og listfræðingur. Ég vildi strax tengja sýninguna við jörð og náttúru og þannig kom nafnið Jarðsögur til. Þær vinna allar með náttúruleg efni og viðfangsefnið hefur beina tengingu við náttúru og landslag. Við uppsetningu sýningarinnar legg ég áherslu á að verkin njóti sín vel í salnum og að það sé jafnvægi innbirðis. Verkin ganga mjög vel saman þó þau séu ólík. Mér finnst mikilvægt að sýna fjölbreytta list og sýning eins og þessi vekur vonandi athygli á þessum gömlu miðlum listvefnaði og leirlist. Allar eiga listakonurnar að baki langan listferil og búa yfir mikilli þekkingu á möguleikum miðilanna.”

Sýningin stendur yfir til 13.febrúar næst komandi og er staðsett í Gallerí Gróttu, allar upplýsingar er að finna á Facebook link hér fyrir neðan.

 


 

Verk Elísarbetu Haraldsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Verk eftir Sigríði Ágústsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Á sýningunni eru listaverk með aðferðum leirlistar og listvefnaðar.

Listakonurnar þrjár, Auður Vésteinsdóttir, Elísabet Haraldsdóttir og Sigriður Ágústsdóttir.

Verk Auðar Vésteinsdóttur sem unnin eru með aðferðum listvefnaðar.