Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

VERA – Samsýning Christine Gísla, Jónu Þorvaldsdóttur og Katrín Gísladóttir/Katra á ljósmyndum og keramikskúlptúrum í Gallery Grásteini, Skólavörðustíg 4, Reykjavík.

Fimmtudaginn 4.febrúar kl.16.00 opna listakonurnar Christine Gísla, Jóna Þorvaldsdóttir og Katrín Gísladóttir/Katra sýninguna VERA í Gallery Grásteini, á Skólavörðustíg 4, sýningin er staðsett á efri hæð Gallery Grásteins. VERA er á dagskrá Vetrarhátíðar sem hefst 4.febrúar. Á sýningunni sýna þær Christine, Jóna og Katra ljósmyndir og keramikskúlptúra sem eru afrakstur átta mánaða samvinnu þar sem fléttast saman hugleiðingar um tilveruna, líðandi stund og til-veruna í kringum okkur. Allar vinna þær með abstrakt form, hver á sínum forsendum, svo úr verður skemmtileg samsetning ljósmynda og þrívíðra verka.

Sýningin VERA er hluti af Vetrarhátíð – Winter Lights Festival 2021 og verður opin alla daga frá 4. febrúar til 28. febrúar á opnunartíma Gallery Grásteins. 


 

Um listakonurnar þrjár

Christine Gísla útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í Reykjavík árið 2014 og hefur einnig notið leiðsagnar hjá þekktum ljósmyndurum á borð við Elinu Brotherus, Elizabeth Opalenik, Neal Rantoul, Jeniu Fridlyand, Daniel Reuter og David W. Lewis. Hún hefur haldið einkasýningar og samsýningar á ljósmyndum sínum og selt þær víða um lönd, meðal annars til Japan, Kanada og Bandaríkjanna.

www.christinegisla.com

Jóna Þorvaldsdóttir lærði ljósmyndun hjá Marian Schmidt og Izabela Jaroszewska í Ljósmyndaskólanum í Varsjá í Póllandi. Hún hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Póllandi og í Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölmörgum vinnustofum hérlendis og erlendis og staðið sjálf að vinnustofum með David W. Lewis í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Elizabeth Opalenik í samvinnu við BÆ listasetur á Höfðaströnd. Ljósmyndir hennar eru m.a. í eigu Ljósmyndasafns Íslands og Hafnarborgar.

www.jonath.is

Katrín Gísladóttir (Katra) hefur verið að vinna í leir frá árinu 1994 en vinnur einnig með gler, járn og hrosshár sem hún tvinnar saman í einstök verk. Hún hefur sótt fjölda myndlistarnámskeiða og lokið nokkrum önnum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þáttaskil urðu árið 2007 þegar hún sótti námskeið í rakú-brennslu í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Katra hefur tekið þátt í samsýningum, m.a. í Listasafni Árnesinga, og vinnur nú í teymi Art67 á Laugarvegi þar sem verkin hennar eru til sölu.

www.katra.is

Spennandi sýning sem vert er að kíkja á en sýningin stendur til 28.febrúar.


Verk á sýningunni eftir Christine Gísla

Verk eftir Jónu Þorvalds á sýningnni

Katrín Gísladóttir (Katra) vinnur verk sín í leir.

Share This