Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur er samsýning þriggja litstakvenna, þeirra Auðar Vésteinsdóttur, Elísabetar Haraldsdóttur og Sigríðar Ágústsdóttur opnaði í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 21. janúar.

Listakonurnar eiga það sameiginlegt að nýta sér miðla handverks og nytjalistar við sköpun einstakra listaverka með aðferðum leirlistar og listvefnaðar. Allar eiga þær að baki langan listferil og búa yfir áralangri reynslu og þekkingu á efniviðnum og möguleikum hans. Listakonurnar segja sögur með náttúrulegum efnivið eins og ull, hör, jarðleir og postulíni, sem hefur vísun í jörð, náttúru og landslag. Líkt og í náttúrunni geta óvæntir hlutir gerst í vinnuferlinu og útkoman er ekki alltaf fyrirséð. Fyrirbæri náttúrunnar samlagast efninu í myndvefnaði Auðar og leirverkum Elísabetar og Sigríðar þar til fullkomið samband næst milli hugar og handar segir í texta á viðburði sýningarinnar á Facebook.

Sýningarstjóri sýningunnar er Aðalheiður Valgeirsdóttir, sem hafði þetta að segja þegar Innlit hafði samband við hana.

“Listkonurnar leituðu til mín fyrir nokkrum mánuðum og báðu mig að taka að mér sýningarstjórn sem mér leist strax vel á enda þekkti ég nokkuð vel verkin þeirra. Sjálf er ég myndlistarmaður og listfræðingur. Ég vildi strax tengja sýninguna við jörð og náttúru og þannig kom nafnið Jarðsögur til. Þær vinna allar með náttúruleg efni og viðfangsefnið hefur beina tengingu við náttúru og landslag. Við uppsetningu sýningarinnar legg ég áherslu á að verkin njóti sín vel í salnum og að það sé jafnvægi innbirðis. Verkin ganga mjög vel saman þó þau séu ólík. Mér finnst mikilvægt að sýna fjölbreytta list og sýning eins og þessi vekur vonandi athygli á þessum gömlu miðlum listvefnaði og leirlist. Allar eiga listakonurnar að baki langan listferil og búa yfir mikilli þekkingu á möguleikum miðilanna.”

Sýningin stendur yfir til 13.febrúar næst komandi og er staðsett í Gallerí Gróttu, allar upplýsingar er að finna á Facebook link hér fyrir neðan.

 


 

Verk Elísarbetu Haraldsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Verk eftir Sigríði Ágústsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Á sýningunni eru listaverk með aðferðum leirlistar og listvefnaðar.

Listakonurnar þrjár, Auður Vésteinsdóttir, Elísabet Haraldsdóttir og Sigriður Ágústsdóttir.

Verk Auðar Vésteinsdóttur sem unnin eru með aðferðum listvefnaðar.

Share This