Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

MUTT er nýtt gallerí sem opnaði á Laugarveginum í desember síðastliðinn og er rekið af Júlíu Marinósdóttur. Júlía er menntuð í Listfræði frá Háskóla Íslands og tók síðan Master í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Júlía segist ekki vera listakona sjálf en hefur þó verið viðloðandi listum og áður en hún réðst í það að opna sitt eigið gallerí starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Listasafni Íslands.

“Fyrsta sýning MUTT var vídeóinnsetningin Hugvarp eftir Harald Karlsson og fór upp í desember. Það var gluggasýning í skammdeginu en þann 15. janúar opnaði ég dyrnar með sýningu Úlfs Karlssonar, 2+2=5,” segir Júlía. Sýningin hefur fengið góð viðbrögð síðan hún fór af stað enda er Úlfur öflugur listamaður og boðberi ákveðinnar kynslóðar.” 

Hvers vegna þessi tímasetning?

“Fyrir mér er þetta rétti tíminn til að fara út í atvinnurekstur en ég hef alltaf vitað að það ætti vel við mig. Ég á tvö börn sem eru 16 og 24 ára og hef góðan tíma núna til að einbeita mér að þessu verkefni, sem má segja er pínulítið barnið mitt, segir Júlía og brosir. Ég hef verið spurð út í þessa tímasetningu, út af kóvid, en fyrir utan að vera svolítið hvatvís, finnst mér einmitt rétti tíminn að grípa tækifærin þegar það er niðursveifla því ég lít á það sem tímabundið ástand og þá er gott að vera komin af stað þegar allt fer á fullt” segir Júlía sannfærandi.

Ögrandi listform heillandi

Júlía er spurð hvort hún eigi sér uppáhalds listamann. “Það er erfitt að sigta út einn sem uppáhalds, íslenskan eða erlendan. Þeir eru margir sem standa upp úr en list sem ögrar viðteknum venjum, áliti eða hugsun hefur alltaf heillað mig. Margar liststefnur sem brutust fram gerðu einmitt það, þær komu sem andstaða við fyrri stefnu og buðu upp á nýja hugsun, nýja nálgun. Ég held að fólk laðist að verkum hjá ákveðnum listamönnum af því það finnur samhljóm hvort sem hann er fagurfræðilegur, tilfinningalegur eða andlegur. Verkin tala til manns á ákveðinn hátt sem er ekki hægt að útskýra, segir Júlía.

“Fyrir mér verða þau að fela í sér sannleik, sem er kannski ekki sá sami hjá öðrum en hann tengist þessum samhljómi. Stundum er það svona aha! móment og stundum er það tenging við eitthvað hið innra en það hefur alltaf einhverja persónulega þýðingu”

Alþýðugallerí með nafn sem vísar í skemmtilega sögu

“MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917. Hann sendi inn klósettskál snúið á hlið áritað R. Mutt undir dulnefni til Sambands Sjálfstæðra Listamanna sem hann tók þátt í að stofna og nefndi verkið Gosbrunnur (Fountain). Sambandið hafði bundið sig til að samþykkja allar umsóknir meðlima svo þetta hristi almennilega upp í öllum og nýtt samtal um skilgreiningu á list varð til. Út frá þessu spruttu upp stefnur sem mótuðu síðan list 20. aldar. Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtileg og markverð saga en þetta var örútgáfan af henni og nafnið sem úr ensku þýðir blendings hundur og vitleysingur finnst mér líka passa vel inn í þá mynd að MUTT er alþýðulegt og þykist ekki vera eitthvað,” segir Júlía.

Sýningarstefna sem felur í sér fjölbreytni

“Sýningarstefnan tekur mið af því að opna sýningar með listamönnum sem vinna í mismunandi miðlum og þannig styðja við fjölbreytni í sýningarhaldi. Áhersla er lögð á að ná að sýna það sem er áhugavert og á erindi í samtímann hverju sinni. Framundan eru spennandi tímar, árið er að raðast saman og næst verður sýning á verkum eftir listakonuna Shu Yi sem vinnur með tímann og augnablikið í verkum sínum. Sýningin opnar 26. febrúar 2021” segir Júlía að lokum.

Hér fyrir neðan er að finna linka inná samfélagsmiðla MUTT gallerí.


Nú stendur yfir sýning á verkum Úlfs Karlssonar, 2+2=5.

Júlía Marinósdóttir eigandi MUTT gallerís.

Úlfur Karlsson 2+2=5

MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917 sem var svokallað readymade verk.

muttgalleri.is

Share This