Innlit á veitingastaðinn Reykr í Hveragerði

Innlit á veitingastaðinn Reykr í Hveragerði

Innlit á veitingastaðinn Reykr í Hveragerði

Það var hans eigin græðgi sem rak Jón Aron Sigmundson matreiðslumaður í að læra matreiðslu. Í dag rekur hann veitingastaðinn Reykr í Hvergagerði og notar hráefni úr nærumhverfi sínu í rétti á matseðil. Veitingastaðurinn stendur við bakka Varmá sem rennur í gegnum bæinn en útsýnið er alveg með eindæmum úr veitingasalnum.

Við hjá Innlit hittum Jón Aron eiganda Reykr í sumar, fengum að bragða á dýrindis réttum og heyra söguna á bak við staðinn.

Þess má til gamans geta að veitingastaðurinn Reykr ætlar að bjóða uppá skötuveislu fyrir áhugasama á Þorláksmessu.

 


Myndataka: Ásta Jónína – Klipping: Þurý Bára Birgisdóttir – Leikstjórn: Signý Rós – Spyrill: Maria Aracelli – Framleiðsla: Auður Eva Ásberg

 

Vefsíða: www.reykr.is

Hefði aldrei búist við að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri

Hefði aldrei búist við að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri

Hefði aldrei búist við að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri

Berglind Hreiðarsdóttir er frumkvöðull, lífskúnster, fagurkeri, bloggari, rithöfundur, eiginkona og móðir sem búsett er í fallegu sérbýli í Mosfellsbæ. Lengst af vann Berglind við mannauðsmál og verkefnastýringu ásamt því að halda úti bloggsíðunni sinni Gotteri.is í hjáverkum. Nú hefur Berglind gefið út þriðju bókina sína Saumaklúbburinn sem hefur notið gífurlegra vinsælda í jólabókasölunni í ár. Kannski ekki skrítið enda ofsalega vönduð og falleg bók að mati blaðakonu Innlits. Við hittum Berglindi í smá spjall.

“Ég hef lengst af unnið við mannauðsmál og verkefnastýringu í lífinu með bloggið á hliðarlínunni, enda bakstur, eldamennska, ferðalög og veislur mín helstu áhugamál. Það var síðan fyrir um tveimur árum að ég ákvað að prófa að fara „all-in“ þangað og sjá hvert það myndi leiða mig. Hér er ég síðan enn, þremur bókum og allnokkrum uppskriftum og ævintýrum síðar”, segir Berglind og hlær.

Aðspurð segist Berglind ekki vita nákvæmlega hvaðan þessi áhugi hennar komi. “Ég held stundum að þetta hafi verið mér í blóð borið. Mamma gerði alltaf flottar afmælisveislur en pabbi hefur reyndar tekið við bakstrinum í seinni tíð á þeirra heimili, amma mín var dugleg að leyfa okkur systrum að baka með sér og oftar en ekki var ég með uppskriftir úr matreiðslu í grunnskólanum að brasa í eldhúsinu.

Ég hugsa síðan að það hafi verið mikilvægt að fá að vera sjálfstæð og mega spreyta mig í eldhúsinu á sínum tíma til að ná að þróa þetta áhugamál. Það er eitthvað innra með mér sem elskar að gleðja aðra og þannig hef ég alltaf verið. Hvort sem það er að gefa gjafir, gera eitthvað óvænt, halda veislur, baka, elda eða skipuleggja ævintýri fyrir fólkið í kringum mig þá virðist ég hafa óþrjótandi vilja og eldmóð til að taka slík verkefni að mér”, segir Berglind.

Berglind er jákvæð og skemmtileg týpa, það er ávallt stutt í smitandi hlátur hennar, enda gefur hún sér rými til þess að rækta hugmyndir sínar og láta þær verða að veruleika.

En hvernig varð til sú hugmynd að gefa út bókina Saumaklúbburinn? “Hugmyndin að Saumaklúbbnum var komin í kollinn á mér við gerð Veislubókarinnar. Ég á það nefnilega til að fá allt of margar hugmyndir og síðan reynist stundum erfiðara að slökkva á þeim aftur” segir Berglind og skellir uppúr.

Berglind heldur áfram: „Saumaklúbburinn var fyrst hugsuð sem hefðbundin uppskriftabók með fjölbreyttum uppskriftum ásamt klassískum nostalgíu uppskriftum. Síðan fékk ég þessa hugmynd með heimboðin í ferlinu og upphaflega áttu þau að vera kannski 3-4 en enduðu á að vera 10 því þessi partur tókst með eindæmum vel, enda klassakonur í kringum mig sem voru tilbúnar að taka þetta verkefni að sér.”

Hvernig uppskriftarbók er þetta?Bókin er því í raun hefðbundin uppskriftabók með 5 köflum fyrir fjölbreyttar stundir ásamt því að vera með einn langan kafla til viðbótar með 10 fullbúnum heimboðum. Fólk getur nýtt sér bókina til að skapa gæðastundir heima við, með sínum nánustu, svo má vonandi fara að bjóða heim bráðlega og leyfa fleirum að njóta góðs af gleðinni. Það ætti því að vera nóg af hugmyndum til að velja uppskriftir og framsetningu úr í bókinni. Vinkonur mínar sögðu reyndar við mig að þetta væri eflaust efni í 2-3 bækur en þetta endaði nú samt allt í einni bók því engu tímdi ég að sleppa”, Já, það er nokkuð augljóst að Berglind á góðar vinkonur.

„Það er eitthvað innra með mér sem elskar að gleðja aðra og þannig hef ég alltaf verið. Hvort sem það er að gefa gjafir, gera eitthvað óvænt, halda veislur, baka, elda eða skipuleggja ævintýri fyrir fólkið í kringum mig þá virðist ég hafa óþrjótandi vilja og eldmóð til að taka slík verkefni að mér”

Hún segir okkur að það hafi aldrei hvarflað að sér að hún væri að fara að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri. En það kom samt sem áður alls ekki til greina að hætta við þó svo að það hafi skotist upp í huga hennar á einhverjum tímapunkti. „Eftir allt saman var þetta líklega betri tími en annars til að gefa út slíka bók þar sem fólk er meira heima við með fjölskyldunni og um að gera að nýta tímann til að dúllast í eldhúsinu og kokka upp eitthvað gómsætt fyrir fjölskylduna.”

Berglind hannaði og tók allar myndir sjálf og finnst blaðakonu þær hver annarri fallegri. Berglind setti setti bókina upp, sendi hana svo í prentun og eins og það sé ekki nóg þá sér hún um alla dreifingu og markaðsetningu sjálf.

En hvaðan sækir Berglind þetta frumkvöðlaeðli?
“Já það er nú góð spurning! Ég hef verið svona frá því að ég var barn, mér dettur eitthvað í hug og ég bara geri það. Ég hef alltaf verið sjálfstæð og látið verkin tala, þó svo ég sé stundum ogguponsu hvatvís líka og slíkt alveg komið mér í bobba! Ég hugsa samt að það sé alltaf betra að láta bara vaða heldur en að vera að sjá eftir því að hafa ekki gert hitt eða þetta á lífsleiðinni. Lífið er allt of stutt til að láta ekki drauma sína rætast og ef hjartað togar mann í einhverja átt finnst mér bara að það eigi að fylgja því og sjá hvað gerist.”

En hvað gerir þessi ofurkona til að ná slökun, eða slakar hún á yfir höfuð? „Slökun, hvað er nú það?!” segir Berglind og skellihlær. „Nei, ég segi nú bara svona, ég mætti svo sannarlega slaka oftar og meira á en ef ég á að nefna þrjá hluti ætla ég að leyfa mér að segja jóga, útivera og heiti potturinn.”

Bókina Saumaklúbburinn er hægt að kaupa í netverslun á heimasíðu Berglindar www.gotteri.is einnig er m.a. hægt að nálgast bókina í verslunum Hagkaupa og Pennans.


Ljósmyndir: Berglind Hreiðarsdóttir

Má bjóða þér til veislu? Uppskrift af þessari uppsetningu er hægt að finna í bók Berglindar.

Gotterí að hætti Berglindar.

Suðrænir & seiðandi mockteils

Suðrænir & seiðandi mockteils

Suðrænir & seiðandi mockteils

Áfengislaus lífsstíll hefur sífellt notið meiri og meiri vinsælda. En það er samt ekki þar með sagt að þeir sem kjósi þann lífsstíl þurfi að sitja með “vatn í klaka” í óspennandi “longdrink” glasi og horfa öfundaraugum á litríka kokteila, borna fram í fallegum glösum með allskonar skrauti allt í kring. Ónei, sá tími er liðinn því sífellt færist í aukanna að barir og veitingastaðir séu farnir að sjá hag sinn í því að bjóða uppá svokalla “mockteils”.

Það eru þó staðir sem standa uppúr og eru með geggjað úrval af girnilegum mocteils og má þar nefna Coocoo´s nest og Luna Flórens út á Granda. En hún Íris Ann Sigurðardóttir ljósmyndari, listrænn listamaður, fagurkeri og eigandi Coocoos og Luna Flórens deildi með okkur á Innlit uppskriftum og myndum af þremur fallegum mockteils.

Orðið mockteils þýðir kældur drykkur sem getur innihaldið m.a. safa, jurtir og/eða sódavatn og í öllum tilfellum án áfengis. Í dag eru allir heitustu staðir heims farnir að bjóða upp á “mockteils menu”, sem hentar vel fyrir alla sem kjósa áfengislausan lífsstíl eða hafa hreinlega ekki efni á timburmönnum næsta dag.

“Drykkirnir bragðast betur í fallegu glasi og við elskum vintage glös, þau eru líka oftast með þynnra gler sem heldur glasinu köldu” segir Íris Ann.

Sía og hrista frá GS import: gsimport.is

Matcha Mojito

  • 1 skot sítrónu/lime safa
  • 1 skot af sykursírópi
  • 1 teskeið af gæða Matcha frá Tefélaginu

Byrjið á því að sjóða vatn setja ca 2 skot af heitu vatni í bolla með teskeið af Matcha og hræra vel saman helst með Matcha hræru. Fyllið kokteilhristu með klökum og setjið svo Matcha blönduna út í. Bætið þar næst við einu skoti af sítrónusafa, einu skoti af sykursírópi og einu auka skoti af köldu vatni.
Hrista vel og njóta!

Sykursíróp aðferð:

Bræða hrásykur og vatn saman 2 hlutföll af sykri á móti vatni. Hita í potti þar til sykurinn er alveg bráðnaður. Íris mæli með hristu og síu frá GS import.


Greipaldin Gos – líka gott fyrir krakkana

  • 2 skot af ferskum greipaldin safa
  • 2 skot af rósmarín-hunangi
  • Toppa með sódavatni

Byrjið á því að kreista ferskan Greipaldin safa þannig að úr verði tvö skot af safa. Svo bætið þið við tveimur skotum af rósmarín-hunangi og toppið með sódavanti.

Rósmarín-hunang aðferð:

Hlutföllin eru sama magn af hunangi og vatni sett í pott og hitað bæta svo nokkrum rósmarín stöngum við. Gott er að láta blönduna liggja í pottinum í allavega klukkutíma og sigta.


Engifer Limoncello

  • 1 skot Aquafaba
  • 2 skot af ferskum lime/sítrónu safa
  • 1 skot af Engifersírópi

Byrjið á því að hrista öll hráefnin vel í hristara með mikið af klökum, vatnið úr klökunum þarf að bráðna út í drykkinn.

Hvað er Aquafaba:

Aquafaba er vatnið sem kemur frá því að elda kjúklingabaunir einnig er hægt að nota vökvann sem er beint úr kjúklingabaunadósum, en þetta er vegan leiðin. Til þess að fá froðu í non-vegan mocteil þá er hægt að nota eggjahvítu.

Engifersýróp:

Jöfn hlutföll af vatni og sykri, saxa niður engifer og hita saman í potti. Kæla blönduna niður og mixa svo í saman í blendir og sigta engifer frá.

 

Matcha Mojito

Bleikt greipaldin

Engifer Limoncello

Innlit til Guðmundar í Skálakoti

Innlit til Guðmundar í Skálakoti

Innlit til Guðmundar í Skálakoti

Guðmundur Viðarson í Skálakoti stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun sem ungur maður, nýbúinn að kaupa bú af afa sínum, hvort hann ætlaði að verða hinn hefðbundni bóndi eða fara í nýsköpun. Hann stökk út í óvissuna og rekur nú í dag eitt fallegasta hótelsetur landsins.

Við hjá Innlit hittum hann Guðmund í byrjun sumars, fengum að heyra söguna á bak við Skálakot og þá fallegu hönnun sem hótelið skartar. Einnig kynnumst frumkvöðlinum, Guðmundi, manninum á bak við Skálakot.

Myndir birtar með leyfi. Myndataka og klipping: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikstjórn: Signý Rós

Systur gera syndsamlega gott súkkulaði undir heitinu KAKÓA

Systur gera syndsamlega gott súkkulaði undir heitinu KAKÓA

Systur gera syndsamlega gott súkkulaði undir heitinu KAKÓA

Í sumar smakkaði ég eitt af því allra besta súkkulaði sem ég hef bragðað á! Ljúffeng og brakandi karmella, hnetur og ber, það má segja að þetta súkkulaði hafi verið syndsamlega gott! En hver stendur á bak við framleiðslu á þessu dásamlega súkkulaði?

Bak við framleiðslu KAKÓA standa systurnar og sælkerarnir Kristín og Hildur Clausen. Hvorugar þeirra hafa einhvern sérstakan bakrunn í súkkulaði- eða matargerð en það hafði þó verið langþráður og umtalaður draumur hjá þeim systrum að búa til sitt eigið súkkulaði. En þess má geta að Kristín er með mastersgráðu í fjármálum fyrirtækja og starfar sem fjármálastjóri hjá alþjóðlegu fyrirtæki og Hildur er með B.A. próf í myndlist, kennararéttindi í sjónlistum og starfar hjá rótgrónu listgalleríi í Reykjavík.

“Pælingin er að bjóða uppá gómsætt hágæða súkkulaði með dásamlegri blöndu af krönsi ofan á og nóg af því… að vera svona Ben & Jerrys í súkkulaðinu. Markmið okkar með KAKÓA er að bjóða uppá súkkulaði upplifun sem við erum stoltar af. Okkar sérstaða er helst það sem við setjum ofan á súkkulaðið. Við búum það til sjálfar að mestu, fyrir utan hneturnar og berin sem við notum. Við erum einnig með spennandi verkefni í pípunum sem við kynnum síðar.”

“Hugmyndin að búa til eigið súkkulaði kviknaði í raun hjá Kristínu fyrir löngu og við systurnar ræddum þetta oft og iðulega án þess að gera meira í því. Draumurinn var að búa til súkkulaði úr hágæða hráefnum, helst frá grunni, læra að vinna kakómassa, tempra og þróa okkar eigin samsetningar. Við kýldum loks á þetta, pöntuðum gæða kakómassa, form og grinder og byrjuðum á að prófa og þróa allskonar samsetningar með tilheyrandi smakki. Súkkulaði er viðkvæm afurð og var þetta í byrjun “learn by doing” ferli hjá okkur, þar sem talsvert magn af súkkulaði endaði í ruslinu. Það sem við setjum ofan á súkkulaðið er einnig þróað af okkur, karmellukrönsið og karmellukókosinn. Upphaflega var þetta hugsað bara fyrir okkur sem áhugamál og til að gleðja vini og vandamenn. En svo vatt þetta ansi hratt uppá sig þar sem viðtökurnar voru frábærar og eftirspurnin varð eftir því. Í haust ákváðum við því að fjárfesta í temprunarvél og fleiri formum og ná okkur í starfsleyfi fyrir KAKÓA.”

“Pælingin er að bjóða uppá gómsætt hágæða súkkulaði með dásamlegri blöndu af krönsi ofan á og nóg af því… að vera svona Ben & Jerrys í súkkulaðinu. Markmið okkar með KAKÓA er að bjóða uppá súkkulaði upplifun sem við erum stoltar af. Okkar sérstaða er helst það sem við setjum ofan á súkkulaðið. Við búum það til sjálfar að mestu, fyrir utan hneturnar og berin sem við notum. Við erum einnig með spennandi verkefni í pípunum sem við kynnum síðar.”

Í dag erum við að framleiða þrjár tegundir af KAKÓA súkkulaði.

•           Dökkt súkkulaði 56% með pistasíum, salthnetum, trönuberjum og karamellukrönsi
•           Mjólkursúkkulaði með karamellukrönsi og sjávarsalti
•           Hvítt súkkulaði með karamellukókos, trönuberjum og sjávarsalti

Við munum klárlega bæta við vöruúrval KAKÓA áður en langt um líður.

Að lokum hvar er hægt að nálgast þetta syndsamlega góða súkkulaði!?

“KAKÓA súkkulaðið fæst nú fyrir jólin í Matarbúrinu í Krónunnar í Lindum og Selfoss. Í desember mun Súkkulaðið okkar einnig fást í Sælkerabúðinni Birtruhálsi og Gallerí List Skipholti. Við stefnum á að bjóða uppá KAKÓA súkkulaði í fleiri verslunum áður en langt um líður.
KAKÓA súkkulaðið hefur einnig verið vinsæl tækifærisgjöf hjá fyrirtækjum, hin fullkomna þrenna í fallegum pakkningum.”

Fjölskyldufyrirtæki

Með systrunum á myndunum er konan hennar Hildar, Jóhanna Þórsdóttir en hún hefur komið að framleiðslunni með systrunum frá upphafi, bæði sem fjárfestir og starfsmaður á plani.

Hægt er að fá allar upplýsingar um hvernig má nálgast vöruna á Facebókarsíðu KAKÓA en hlekk inn á hana má finna neðst í greininni.

Coocoos Nest og Luna Florens – tvær perlur á Grandanum

Coocoos Nest og Luna Florens – tvær perlur á Grandanum

Coocoos Nest og Luna Florens – tvær perlur á Grandanum

Við Grandagarð 23 of 25, í gömlu sjarmerandi netageymslu skúrunum eru tveir staðir sem alltaf er gaman að heimsækja. Þessir staðir heita Coocoos Nest og Luna Flórens og eru þetta fjölskyldustaðir, sama fjölskyldan rekur þá báða og er það hluti af sjarmanum sem stafar af þessum systurstöðum.

Hjónin Íris Ann og Lucas Keller stofnuðu fyrirtækið árið 2013 og hafa nú tveir öflugir drengir bæst í fjölskylduna sem taka virkan þátt í stuði og stemningu staðanna. Lucas er ástríðukokkur frá Kaliforníu sem menntaði sig og starfaði við matreiðslu á Ítalíu en Íris er ljósmyndari og fagurkeri og margt fleira. Saman skapa þau ásamt sínu fólki einstakt umhverfi, viðmót og síðast en ekki síst bjóða þau uppá frábæra upplifun í mat og drykk, auk þess sem þau eru með ýmsan spennandi varning á boðstólnum

Fjölskyldan hefur að sjálfsögðu lagað sig að aðstæðunum sem hafa skapast í samfélaginu upp á síðkastið og bjóða uppá girnilegan heimsendingarmatseðil frá Coocoos Nest þar sem verðlaunaða súrdeigsbrauð staðarins er sjaldnast langt undan.

 Á Luna Flórens en áherslan á spennandi te og kokteila en hægt að panta mat af matseðli Coocoos. Það er mikið úrval af fögrum munum og ýmsu sem skemmtileg er að gefa og er þetta einn af uppáhalds stöðum þeirrar sem skrifar pistilinn til að kaupa fallegar smágjafir eins og fyrir afmæli vinkvenna á þessum töfrastað.

Hægt er að kaupa sér (eða einhverjum sem við elskum) blómvendi, pottablóm, eðalsteina, seremóníukakóstykki, ilmkerti og margt fleira sem gefur lífinu lit og töfra.


Hér að neðan birtum við nokkrar myndir frá báðum stöðunum en þær fengum við að láni af instagram og facebókar síðum staðanna sjálfra og eru birtar með leyfi eigenda.

Spennandi take away matseðill

Súrdeigspizza í hollari, og betri kanntinum

Svalandi og fallegir drykkir eru alltaf viðeigandi

Töfrasteinar með góðri orku – óskaðu þér

Ilmkerti og kósí

Seremóníu cacao fyrir draumana