Senda listina heim að dyrum

Ásdís Spanó og Helga Óskarsdóttir reka saman fyrirtækið MULTIS sem selur myndlist eftir íslenskt samtímalistafólk. Þær hafa báðar verið tengdar íslenskri myndlistarsenu í langan tíma og upplifðu þær ákveðna vöntun á fjölbreyttari nálgun í kynningu og sölu listaverka á markaðinum. Í dag eru fáir að selja samtímalist á Íslandi þó staðan sé vissulega að batna með auknum áhuga og þekkingu en ennþá er það svo að fólk veit oft ekki hvert það á að snúa sér þegar það vill kaupa listaverk. Ásdís og Helga hafa báðar sérstakan áhuga á svokölluðum fjölfeldum eða upplagsverkum en lögmálið með þau verk er að þau eru gerð í upplagi, fleiri en þrjú er miðað við til að verk geti fallið í þennan flokk. Verkin eru síðan árituð og tölusett út frá þeim fjölda sem þau eru búin til í.

Innlit biður þær að útskýra hugmyndafræði Multis fyrir okkur. “Þegar verk er gert í upplagi hafa fleiri tækifæri á að njóta þess og eignast,  er það oft á hagstæðara verði en einstök verk, einnig hafa margir safnarar áhuga á slíkum verkum og eru þá gjarnan með sitt uppáhalds númer, sem þeir sækjast eftir að kaupa. Þar sem við höfum leitast við að bjóða upp á nýjan vettvang fyrir kaupendur þá sáum við tækifæri í því að bjóða til sölu upplagsverk eftir viðurkennda samtímalistamenn.

Við vildum búa til vettvang fyrir fólk til þess að kynna sér og fjárfesta í myndlist nútímans. Einnig er áhersla á að skapa tækifæri fyrir myndlistarmenn til þess að selja verkin sín en við vinnum með listamönnum á öllum aldri, sá yngsti sem á verk hjá okkur er fæddur 1993 og þykir okkur einnig sérstakur heiður að fá að vinna með eldri höfðingjum í bransanum.  Það sem ræður vali okkar á samstarfsfólki er að okkur finnist viðkomandi spennandi sem listarmaður og einhver sem áhugavert er að vinna með.

„Við vildum búa til vettvang fyrir fólk til þess að kynna sér og fjárfesta í myndlist nútímans. Einnig er áhersla á að skapa tækifæri fyrir myndlistarmenn til þess að selja verkin sín en við vinnum með listamönnum á öllum aldri, sá yngsti sem á verk hjá okkur er fæddur 1993 og þykir okkur einnig sérstakur heiður að fá að vinna með eldri höfðingjum í bransanum.”

MULTIS hefur verið starfrækt frá því í maí 2019 og var vefurinn multis.is opnaður við það tækifæri en þetta er enn sem komið er fyrst og fremst vettvangur á netinu, vefgallerí en það er einmitt mjög þægilegt á þessum tímum þar sem fólk kann að meta að geta skoðað listina í tölvunni og að þau sem vilja kaupa verk fá það heim að dyrum. Þannig er hægt að miðla listinni til sem flestra og inn á sem flest heimili. Multis.is er eini vettvangurinn á Íslandi sem býður upp á sýningarstýrð upplagsverk á þennan hátt og beinan aðgang að verkum þekkts listafólks.

Svipmynd frá fyrsta útgáfuhófi MULTIS en það var haldin í anddyri nýbyggingar við Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur.

Á tímum þar sem ekki eru fjöldatakmarkanir eru haldin útgáfuhóf til að fagna nýjum verkum sem gerð hafa verið í samstarfi við Multis og hafa þær valið mismunandi staðsetningar. Er gaman að segja frá því að fyrsta útgáfuhófið var haldið í anddyri nýbyggingar í miðbæ Reykjavíkur.

Önnur útgáfa var kynnt í verslunarrými á Hljómalindarreitnum (fyrrum Hjartagarður). Þar hafði Multis aðsetur yfir tveggja mánaða skeið.

Síðan þá hafa hófin verið á mismunandi stöðum eins og verslunarrými við Hjartatorg og skrifstofurými á Snorrabraut. Hefur það verið hluti af stefnu og stemningu Multis að vera með létta yfirbyggingu og fjölbreytni í framsetningu útgáfunnar.

Þriðja útgáfuhófið var kvennaboð í tilefni 19. júní sem er Kvennafrídagurinn en það var haldið í Mjólkurstöðinni við Snorrabraut. Á myndinni eru listamennirnir þær Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir en saman eru þær Gjörningaklúbburinn. 

En hvað eru fjölfeldi?

Við fáum þær til að útskýra betur fyrir okkur hvað fjölfeldi eða upplagsverk eru. Helga tekur til máls. „Þrjú eða fleiri sams konar listaverk kallast fjölfeldi, upplagsverk eða art editions. Listamaðurinn ákveður upplag, fjölda verka, númerar þau og áritar.  Geta verkin verið ýmist tví- eða þrívíð og eru grafíkprent til dæmis upplagsverk. Sama verkið er gert aftur og aftur.

Ásdís tekur við „Sú hugmynd að framleiða fleiri en eitt eintak af sama listaverki og selja almenningi hefur tíðkast í gegnum aldirnar.  Sú uppgötvun listamannsins að geta prentað fleira en eitt eintak af sama verki átti sér stað á fimmtándu öld en þá þótti mikill kostur að getað dreift verkum sem víðast en sú þróun varð til þess að sjónræn menning efldist til muna í þeim löndum sem sú þekking var til staðar.”

Þær bæta við að tilvalið sé fyrir safnara og listáhugafólk, einnig þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að safna samtímalist að kíkja inn á síðuna multis.is og jafnvel fjárfesta í verki eftir þekktan núlifandi listamann því þar sé úrval af listaverkum á viðráðanlegu verði. Algengt er að þeir sem eru að byrja að safna horfi til eldri og oft látina listamanna og horfi hreinlega fram hjá því sem er nýtt og “að gerast.” Við leggjum áherslu á að listamennirnir sem við störfum með séu með áhugaverða tengingu við samtímann og þann tíðaranda sem einkennir alþjóðlega samtímalist í dag.

Þær Ásdís og Helga sinna einnig ráðgjöf við val, kaup og upphengi á listaverkum og vilja þær meina að lykillinn að því að taka sín fyrstu skref við kaup á myndlist sé að gefa sér tíma, skoða það sem vekur áhuga og fá ráðgjöf um hvað gæti hentað viðkomandi best.

Innlit þakkar þeim Ásdísi og Helgu fyrir spjallið og vill hvetja lesendur sína til að líta við á vefsíðunni multis.is, skrá sig á póstlistann, gerast vinur þeirra á samfélagsmiðlum og láta sjá sig í útgáfuhóf þegar fjöldatakmörkunum lýkur.

 


Til að fá frekari upplýsingar um MULTIS: multis.is, Facebook og Instagram 

 


Hér eru myndum af nokkrum verkum sem MULTIS selur á vefsíðunni multis.is. Þetta eru bara örfá dæmi um úrvalið en á vefsíðunni eru alls 28 verk og fer fjölgandi.

Vefsíða: multis.is

Share This