Sabína Steinunn sér heiminn með augum barna
Sabína Steinunn er með meistara gráðu í íþrótta- og heilsufræðum með áherslu á hreyfifærni barna. Frá því að hún hóf nám í íþróttafræðum 1999 hefur viðfangsefnið börn og hreyfifærni átt hug hennar allan. “Vorið 2002 lauk ég B.c. gráðu í íþróttafræðum og um haustið flutti ég til Óslóar og hóf nám í hreyfingu barn og barna með ólíkar þarfir. Takið eftir ég segi ólíkar þarfir af því að orðið sérþarfir fer í raun í taugarnar á mér – því við erum öll með þarfir, það er hins vegar hlutverk okkar fullorðinna að mæta þörfum allra barna og aðlaga umhverfið að þeirra þörfum.”
Í Ósló fór stór hluti af náminu mínu fram úti í náttúrunni og það skipti ekki máli hvernig veðrið var út var farið og jafnvel heilan skóladag úti í skógi. Námið í Ósló var gríðarlega mikil reynsla og opnaði augun mín enn frekar fyrir því hve mikil áhrif náttúran hefur á líf og vellíðan okkar. Það að fá jákvætt hreyfiuppeldi eykur líkurnar á því að barn viðhaldi slíkum lífsmáta út lífið. Sjálf fékk ég mikla náttúru í æsku og gaman að segja frá því að margar hugmyndir í bókinni Útivera eru komnar frá mömmu. Hlutir sem mamma var að finna upp á fyrir mig sem barn og leyfa mér að njóta. Ég er fædd og uppalin á Laugarvatni þar sem náttúran er allt í kringum fólk. Fjall, vatn, skógur, lækir og fegurðin út um allt. Vissulega hlutdræg en samt, gnægð af öllu fyrir náttúrubarnið mætti segja hlaðborð jákvæðra áreita á skynþroska barns.
Ég hef óbilandi trú á náttúrunni, hef alla tíð haft, og sérstaklega á hreyfifærni og skynþroska barna. Í raun hefur náttúran áhrif á alla þroska þætti barna og styrkir heilsu þeirra á allan máta. Bæði líkamlega, andlega og félagslega. Rannsóknir hafa sýnt að barn sem lærir og leikur reglulega í náttúrunni er með sterkara ónæmiskerfi, þau sofa betur, búa við betra hreysti, eru með betri liðleika, samhæfingu, styrk, betri félagsfærni, betri sjálfsmynd og fleira og fleira. Eins reyni ég að nýta tilbúin leikföng sem minnst, það verður auðvitað aldrei hjá því komist en þá er um að gera að taka pínu tvist á hlutina og til dæmis fara með hefðbundin inni leikföng út í náttúruna. Hver segir að það megi ekki bjóða bangsa með í gönguferð eða taka lego kubba með út í snjó. Tilkostnaður við hverja hugmynd í bókinni Útivera er til dæmis lítill sem enginn og það er hluti af minni hugmyndafræði. Nýta náttúruna í leik og þar sem til fellur. Fyrsta skrefið er að vera þátttakandi í leik barna og reyna að sjá heiminn með þeirra augum.
Ég var búin að ganga með hugmyndina að Útiveru í nokkur ár þegar ég lét slag standa. Árið 2010 kom út fyrsta bókin mín Færni til framtíðar sem er handbók um örvun hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi og sú þriðja 2016 en það er leikjabók Leikgleði sem ég skrifaði fyrir Menntamálastofnun. Færni til framtíðar og Leikgleði eru byggðar upp með sömu hugmyndafræði og Útivera, þ.e. náttúran er í forgrunni og skiptir ekki máli hvort þú búir á Þórshöfn á Langanesi, Reykjavík eða London allir geta nýtt sér bækurnar. Gaman að segja frá því að fyrsta bókin mín hefur verið þýdd á norsku og notuð í leikskólum í Noregi.
Frá 2002 hef ég haldið hundruð fyrirlestra og flesta jú meðal starfsfólk leikskóla og eða foreldra leikskólabarna. Ég hleraði raddir vel á þessum fyrirlestrum og samtalið við fólkið tryggði enn frekar trú mína á efninu. Fólki vantaði hugmyndir að gæðastundum, eða hugmyndir til að fjölga gæðastundum með börnum í náttúrunni. Á vissu aldursskeiði eru börn mjög móttækileg fyrir ímyndunar- og hlutverkaleik, þau eru sífellt í leit að nýjum upplifunum og þau þyrstir í ævintýri. Börn eru sköpuð til að hreyfa sig og þau setja sig oftar en ekki í stellingar sem litlir vinnumenn sem hafa endalausa orku til að njóta þess sem verður á vegi þeirra. Leikur er í forgrunni og það er hlutverk okkar fullorðinn að skapa ólík tækifæri, gefa svigrúm fyrir mismundandi umhverfi og síðast en ekki síst tíma. Tími er auðlind sem er ákaflega dýrmæt og tími sem við verjum með börnunum okkar í gæðastundir getur haft varanleg áhrif á líf þeirra til æviloka. Við sköpum okkur lífsstíl sem eykur líkurnar á því að barnið velji það sama og svo koll af kolli fyrir næstu kynslóðir.
Ég tala um að verja tíma, ég á mjög erfitt með það þegar ég sé fólk tala um að eyða tíma með börnunum sínum eða fjölskyldu. Fyrir mér eyðum við tíma í vitleysu en við verjum honum í góða hluti og sáum fræjum. Útivera hefur að geyma 52 hugmyndir af gæðastundum fyrir fjölskylduna. Hugmyndir sem er auðvelt að tileinka sér og notendur geta verið fullvissir um það að þær hafa allir jákvæð áhrif á alla þroska þætti barna. Ég vildi skrifa notendavæna bók, bók sem er á mannamáli en ekki akademíska bók með flóknu fræðimáli.
Nú erum við að detta inn í mesta skammdegið en hver árstíð hefur sinn sjarma og býður upp á misjafnar upplifanir fyrir skynfærin okkar. Skammdegið hefur jákvæð áhrif til dæmis á sjónskyn barna og það er gaman að ögra því í þessum aðstæðum. Það er tilvalið að fara í gönguferðir til dæmis með vasaljós, höfuðljós eða jafnvel kerti í krukku. Ég hvet fólk til að taka smá tvist á daglegar venjur og þora að fara út fyrir rammann á hefðbundnum seinni part í lífinu. Fara með bækur út í náttúruna og lesa sögu fyrir svefninn, það má alveg vera í náttfötum undir skíðagallanum koma svo heim og fá heitan kakóbolla fyrir svefninn. Leyfa þeim sem eru komin í skóla að taka lestrarbókina með út og klára heimalesturinn. Útbúa lítil snjóhús fyrir kertið og borða kvöldmatinn jafnvel úti í garði eða næsta lundi. Með svona einföldum hugmyndum fjölgar fólk gæðastundum fjölskyldunnar, nær að kúpla sig frá amstri dagsins og núvitund er hvergi betri en úti í náttúrunni. Að sjálfsögðu takmörkum við tíma í snjall tækjum og jafnvel skiljum þau eftir heima.
Fyrsta skrefið er að fara út og njóta – þetta er ekki spurning ferðalagið eða áfangastaðinn heldur – ferðafélagana!
Skemmtileg aðferð við að þekkja plöntur & blóm
Verslun: salka.is