Hefði aldrei búist við að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri
“Ég hef lengst af unnið við mannauðsmál og verkefnastýringu í lífinu með bloggið á hliðarlínunni, enda bakstur, eldamennska, ferðalög og veislur mín helstu áhugamál. Það var síðan fyrir um tveimur árum að ég ákvað að prófa að fara „all-in“ þangað og sjá hvert það myndi leiða mig. Hér er ég síðan enn, þremur bókum og allnokkrum uppskriftum og ævintýrum síðar”, segir Berglind og hlær.
Aðspurð segist Berglind ekki vita nákvæmlega hvaðan þessi áhugi hennar komi. “Ég held stundum að þetta hafi verið mér í blóð borið. Mamma gerði alltaf flottar afmælisveislur en pabbi hefur reyndar tekið við bakstrinum í seinni tíð á þeirra heimili, amma mín var dugleg að leyfa okkur systrum að baka með sér og oftar en ekki var ég með uppskriftir úr matreiðslu í grunnskólanum að brasa í eldhúsinu.
Ég hugsa síðan að það hafi verið mikilvægt að fá að vera sjálfstæð og mega spreyta mig í eldhúsinu á sínum tíma til að ná að þróa þetta áhugamál. Það er eitthvað innra með mér sem elskar að gleðja aðra og þannig hef ég alltaf verið. Hvort sem það er að gefa gjafir, gera eitthvað óvænt, halda veislur, baka, elda eða skipuleggja ævintýri fyrir fólkið í kringum mig þá virðist ég hafa óþrjótandi vilja og eldmóð til að taka slík verkefni að mér”, segir Berglind.
Berglind er jákvæð og skemmtileg týpa, það er ávallt stutt í smitandi hlátur hennar, enda gefur hún sér rými til þess að rækta hugmyndir sínar og láta þær verða að veruleika.
En hvernig varð til sú hugmynd að gefa út bókina Saumaklúbburinn? “Hugmyndin að Saumaklúbbnum var komin í kollinn á mér við gerð Veislubókarinnar. Ég á það nefnilega til að fá allt of margar hugmyndir og síðan reynist stundum erfiðara að slökkva á þeim aftur” segir Berglind og skellir uppúr.
Berglind heldur áfram: „Saumaklúbburinn var fyrst hugsuð sem hefðbundin uppskriftabók með fjölbreyttum uppskriftum ásamt klassískum nostalgíu uppskriftum. Síðan fékk ég þessa hugmynd með heimboðin í ferlinu og upphaflega áttu þau að vera kannski 3-4 en enduðu á að vera 10 því þessi partur tókst með eindæmum vel, enda klassakonur í kringum mig sem voru tilbúnar að taka þetta verkefni að sér.”
Hvernig uppskriftarbók er þetta? „Bókin er því í raun hefðbundin uppskriftabók með 5 köflum fyrir fjölbreyttar stundir ásamt því að vera með einn langan kafla til viðbótar með 10 fullbúnum heimboðum. Fólk getur nýtt sér bókina til að skapa gæðastundir heima við, með sínum nánustu, svo má vonandi fara að bjóða heim bráðlega og leyfa fleirum að njóta góðs af gleðinni. Það ætti því að vera nóg af hugmyndum til að velja uppskriftir og framsetningu úr í bókinni. Vinkonur mínar sögðu reyndar við mig að þetta væri eflaust efni í 2-3 bækur en þetta endaði nú samt allt í einni bók því engu tímdi ég að sleppa”, Já, það er nokkuð augljóst að Berglind á góðar vinkonur.
„Það er eitthvað innra með mér sem elskar að gleðja aðra og þannig hef ég alltaf verið. Hvort sem það er að gefa gjafir, gera eitthvað óvænt, halda veislur, baka, elda eða skipuleggja ævintýri fyrir fólkið í kringum mig þá virðist ég hafa óþrjótandi vilja og eldmóð til að taka slík verkefni að mér”
Hún segir okkur að það hafi aldrei hvarflað að sér að hún væri að fara að gefa út bók í miðjum heimsfaraldri. En það kom samt sem áður alls ekki til greina að hætta við þó svo að það hafi skotist upp í huga hennar á einhverjum tímapunkti. „Eftir allt saman var þetta líklega betri tími en annars til að gefa út slíka bók þar sem fólk er meira heima við með fjölskyldunni og um að gera að nýta tímann til að dúllast í eldhúsinu og kokka upp eitthvað gómsætt fyrir fjölskylduna.”
Berglind hannaði og tók allar myndir sjálf og finnst blaðakonu þær hver annarri fallegri. Berglind setti setti bókina upp, sendi hana svo í prentun og eins og það sé ekki nóg þá sér hún um alla dreifingu og markaðsetningu sjálf.
En hvaðan sækir Berglind þetta frumkvöðlaeðli?
“Já það er nú góð spurning! Ég hef verið svona frá því að ég var barn, mér dettur eitthvað í hug og ég bara geri það. Ég hef alltaf verið sjálfstæð og látið verkin tala, þó svo ég sé stundum ogguponsu hvatvís líka og slíkt alveg komið mér í bobba! Ég hugsa samt að það sé alltaf betra að láta bara vaða heldur en að vera að sjá eftir því að hafa ekki gert hitt eða þetta á lífsleiðinni. Lífið er allt of stutt til að láta ekki drauma sína rætast og ef hjartað togar mann í einhverja átt finnst mér bara að það eigi að fylgja því og sjá hvað gerist.”
En hvað gerir þessi ofurkona til að ná slökun, eða slakar hún á yfir höfuð? „Slökun, hvað er nú það?!” segir Berglind og skellihlær. „Nei, ég segi nú bara svona, ég mætti svo sannarlega slaka oftar og meira á en ef ég á að nefna þrjá hluti ætla ég að leyfa mér að segja jóga, útivera og heiti potturinn.”
Bókina Saumaklúbburinn er hægt að kaupa í netverslun á heimasíðu Berglindar www.gotteri.is einnig er m.a. hægt að nálgast bókina í verslunum Hagkaupa og Pennans.
Ljósmyndir: Berglind Hreiðarsdóttir
Má bjóða þér til veislu? Uppskrift af þessari uppsetningu er hægt að finna í bók Berglindar.
Gotterí að hætti Berglindar.