Feðginin Haukur og Gunnhildur gerðu saman spáspilið Yggdrasil

Þegar nýtt ár gengur í garð þá förum við gjarnan að velta framtíðinni fyrir okkur og komandi ári með væntingum og vonum. Áramótaheit þekkjum við flest og höfum eflaust einhvern tímann sett okkur slík, svo getur líka verið skemmtilegt við tímamót sem þessi að spá í spilin. En íslensk spáspil, Yggdrasil, byggð á norrænni goðafræði hafa unnið til tveggja verðlauna hjá International Tarot Foundation. Á bak við spilin standa feðginin Haukur Halldórsson listamaður og Gunnhildur Hauksdóttir myndlistarkona.

Yggdrasil spilin eru þó ekki tarotspil sem slík heldur flokkast sem spáspil en Haukur Halldórsson listamaður á heiðurinn að tilurð þeirra. Haukur hefur í áratugi myndgert guði og vætti úr norrænni goðafræði sem og íslenskri þjóðtrú en við gerð spilastokksins fékk hann dóttur sína, Gunnhildi sem er myndlistakona, til liðs við sig. Gunnhildur samdi og skrifaði handbókina sem fylgir stokknum, ljáði myndunum merkingu og bjó til spákerfi spilanna, svokallaða Yggdrasil lögn.

 Feðginin aðhyllast bæði ásatrú. “Verkin mín hafa sótt innblástur í goðafræðina og þjóðtrú síðan Gunnhildur var lítil, hún er alin upp í þessu, heiðnin var alltaf nálæg. Myndirnar sem prýða spilin eru unnar yfir langt tímabil„ segir Haukur.

Sveinbjörn Beinteinsson Alsherjargoði sem endurvakti íslenska heiðni á áttunda áratug síðustu aldar var heimilisvinur. “Hann eyddi oft jólunum hjá okkur og við eyddum sumrum hjá honum að hjálpa til við sauðburð og heyskap” segir Haukur og bætir við að Sveinbjörn hafi verið mikill áhrifavaldur í lífi þeirra. “Hann kenndi mér að kveða og þekkja íslenskar jurtir þegar ég var lítil” bætir Gunnhildur við. 

„Við erum ofsalega kát með móttöku spilanna og þykir heiður sýndur að vera í svona góðum félagsskap í tilnefningum” en þetta samstarfsverkefni feðginanna er það fyrsta sem þau vinna saman. „Pabbi leiðbeindi mér og sendi mér lesefni við skriftirnar, en goðafræðin er svo marglaga í merkinga- og táknheimi að handbókin skrifaði sig eiginlega sjálf“ bætir hún við.

 

„Við erum ofsalega kát með móttöku spilanna og þykir heiður sýndur að vera í svona góðum félagsskap í tilnefningum“

Spilin eiga rætur sínar til heimsmyndar Eddukvæðanna og hinna níu heima sem sitja í greinum og við rætur Yggdrasils. Í stokknum eru 81 spil, níu spil fyrir hvern af níu heimum Eddunar og Yggdrasil, lögnin er byggð á því hvernig heimarnir sitja í trénu og þeirri merkingu sem hver heimur gefur. Einnig má nota spilin á fjölbreyttan hátt og leggja þau samkvæmt eigin hyggjuviti „margir notendur nota rúnir með spilunum“ segir Gunnhildur.

Hér að neðan er myndband þar sem Gunnhildur sýnir hvernig hún leggur spilin:

Eins og fyrr segir hlutu spilin verðlaun hjá International Tarot Foundation. Spilin komu út á ensku hjá útgefandanum Llewellyn Worldwide í júlí 2019 og hafa selst feikna vel sérstaklega í Bandaríkjunum. Þýðingarsamningar voru gerðir á þessu ári við Rússland og Frakkland og bókin kom út á Rússnesku hjá Eksmo í Moskvu í október.

Myndirnar tók Cormac Walsh. Á Íslandi eru spilin fáanleg hjá Pennanum Eymundsson, Betra Líf í Kringlunni. 

Share This