Íris Huld Guðmundsdóttir

Erla Þórdís leiðsögukona hjá Fjallhalla fann ástina á fjöllum

Fjallhalla adventurers er lítið fjölskyldufyrirtæki staðsett í Reykholti í Biskupstungum og er rekið af Erlu Þórdísi Traustadóttur og eiginmanni hennar Ívari Sæland. Þau Erla Þórdís og Ívar segjast elska jafn mikið og viðskiptavinir sínir að ganga fjöll og vilja í göngum sínum leiðbeina fólki hvernig á að verða sjálfbjarga á fjöllum. Þau vilja gefa fólki það góða ráð að njóta útivistar sem þau telji sérstaklega mikilvægt núna, ekki bara í kóvid ástandinu heldur einnig í skammdeginu.

“Við elskum jafn mikið að ganga á fjöll og viðskiptavinirnir okkar og má því segja að upplifunin verði extra ánægjuleg þegar gengið er á fjöll með okkur. Við viljum í leiðinni gefa ráð og kenna viðskiptavinum okkar að verða sjálfbjarga á fjöllum eða allavega hafa sjálfstraustið í að fara sjálf í æfingarferðir á minni fjöll og fell. Í stuttu máli erum við að reyna að að fá sem flesta til að njóta útiverunnar, það skiptir sérstaklega miklu máli núna í covid ástandinu og myrkrinu að læra að njóta þess sem útivera býður uppá. Við erum að fá til okkar marga sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivist og er gaman að geta hjálpað, ráðlagt og séð fólk blómstra í náttúrunni! Þá er markmiði okkar náð.”

Erla Þórdís og Ívar hafa bæði alltaf haft mikinn áhuga á útivist og kynntumst fyrir um 4 árum síðan einmitt í skipulagðri göngu. “Við vorum einmitt bæði búin að “bíða” eftir að kynnast makanum okkar í einhverri ferð eða þannig. En það sem kom mér mest á óvart þegar ég var yngri og tók þátt í göngum var það að ég var alveg lang yngst, segir Erla Þórdís. Og ég velti því fyrir mér af hverju minn aldur hefði ekki áhuga á skipulagðri útivist? En það má eiginlega segja að kóvid ástandið hafi breytt þessu. Núna hefur fólk ákveðið að prófa þessa hreyfingu, sérstaklega þegar það hefur hvorki komist í sund né líkamsrækt, þá hafa fleiri lært að elska að klífa fjöll eða þvíumlíkt og það gleður okkur!”

Erla Þórdís & Ívar með frumburðin sinn sem fæddist í september.

Áhugi Erlu Þórdísar á fjallgöngum vaknaði mjög snemma.

“Ég tók að mér starf “fjallasnígils” hjá Háskóla Íslands í tvö ár. Þar skipulagði ég og framkvæmdi ævintýraferðir fyrir skiptinema og íslendinga. Oftar en ekki seldust þessar ferðir upp samstundis og voru það oftast erlendu skiptinemarnir sem voru áhugasamastir. Á þessum tíma stundaði ég nám í ferðamálafræði en sinnti þessum útivistarklúbbi nánast meira en náminu”, segir Erla Þórdís og hlær. “Það má segja að ég hafi fundið mér áhugamál og vinnu sem hentaði mér mjög vel. Um það leyti sem ég útskrifaðist þá ákvað ég að stofna fyrirtækið Fjallhalla adventures sem gekk út á það sama og útivistarklúbburinn í háskólanum.”

“Það er eitthvað við það að ná að komast uppá topp, sjá yfir og líða stórkostlega. Þessi tilfinning situr eftir og fylgir þér jafnvel í nokkra daga. Það að ganga á fjöll reynir á svo mörg skilningsvit og vöðva í líkamanum sem maður vissi ekki einu sinni að væru til.”

Erlu Þórdísi finnst erfitt að bera saman útivist og líkamsrækt innandyra. “Best er að gera bæði, segir hún, því erfitt getur verið að finna sér tíma í að ganga á fjöll í íslenska skammdeginu og veðrinu sem þessum árstíma fylgir. En ég hvet alla til að drífa sig út um leið og veður og vindar leyfa, því fylgir ekki eftirsjá” segir Erla sannfærandi.

Erla Þórdís og Ívar reka eina fyrirtækið sem býður uppá göngur, norðurljósatúra og dagsferðir í Reykholti og nágrenni og hafa því í nægu að snúast þessa dagana ásamt því að sinna frumburði sínum sem fæddist í september. “Við þekkjum vel til fjallanna þar sem við göngum oft uppá þau í okkar frítíma. Við þekkjum vel aðkomuna og bestu leiðirnar uppá fjöllin og erum í góðu samstarfi við bændur og landeigendur svæða hér í kring. Við ætluðum að keyra í gang vetrarmámskeið í byrjun desember, en vegna fjöldatakmarkanna gekk það því miður ekki upp. En námskeiðinu hefur verið frestað fram í janúar. Það námskeið er hugsað fyrir byrjendur í fjallgöngum, sem á við um meirihluta Íslendinga um þessar mundir. En svo verðum við einnig með áhugaverðar göngur í vor, til að mynda að “litla Grænahrygg” á Reykjanesi, jöklaferðir og svo verður leikurinn endurtekin næsta sumar með Grænahrygg og Kerlingafjöll en þær göngur nutu gríðarlegra vinsælda síðast liðið sumar!”

Erla Þórdís segir að hingað til hafi hennar viðskiptavinir nær eingöngu verið erlendir ferðamenn, en það hafi breyst í sumar þegar þau fóru að bjóða uppá dagsferðir í Kerlingafjöll og Grænahrygg. „Ég mundi segja að konur milli 25-60 ára séu aðallega að sækjast í ferðir hjá mér og vonandi mun næsta sumar verða jafn skemmtilegt og í fyrra því þá kemst ég með” segir Erla Þórdís og hlær.

“Ég átti sem sagt mitt fyrsta barn núna 11.september og hefði mig aldrei órað fyrir því að ég yrði jafn upptekin og ég var síðast liðið sumar og eins núna í vetur, en ég gæti ekki verið ánægðari! Ég gat meira að segja ekki slitið mig frá tölvunni á fæðingardeildinni því það þurfti að skipuleggja og svara tölvupósti frá viðskiptavinum fyrir planaðar ferðir, segir Erla Þórdís hlæjandi. “Ég hef náð að smala saman mjög góðum hópi af leiðsögumönnum og starfsfólki á skrifstofu sem hefur verið mér ómetanlegt þegar hausinn hefur ekki alveg verið á réttum stað” segir Erla Þórdís að lokum.

 

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um skipulagðar göngur og dagskrá komandi árs inn á Fésbókarsíðu Fjallhalla, einnig mælum við með að fylgja þeim á samfélagsmiðlum sjá linka hér fyrir neðan.

Ljósmyndir: Ívar Sæland

Share This