Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla og Hendrikka Waage í eina sæng

Katla fatamerki Áslaugar Magnúsdóttur viðskipta- og athafnakonu og Hendrikka Waage skartgripahönnuður og myndlistakona hafa nú sameinað krafta sína og frumsýndu í dag nýja línu sem ber nafnið “Wonderful beings”. Um ræðir boli og peysur sem eru hannaðar undir merkjum Katla skreytt myndlistarverkum Hendrikku Waage sem koma í takmörkuðu upplagi.

Hendrikka Waage sem er einna þekktust fyrir skartgripahönnun sína hélt sýningu á myndlistarverkum sínum hér á landi í ágúst í fyrra. En verkin sem eru protrait og prýða litíkar og fallegar konur hafa nú verið yfirfærðar á fatnað frá Katla.  Katla fatamerkið höfum við aðeins fjallað um á Innlit og prýddi það meðal annars lista yfir uppáhalds jogginggallana okkar eftir íslenska hönnuði.

Það er einstaklega skemmtilegt og táknrænt að sjá hvernig tvær dýnamískar íslenskar viðskipta- og listakonur nota krafta sína á alþjóðlegum degi kvenna með því að sameina hönnun sína á svo faglegan og flottan hátt. Útkoman er hreint út sagt frábær. Til hamingju með daginn Áslaug, Hendrikka sem og allar aðrar konur!

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

Vera-Skapandi samsýning listakvenna á Vetrarhátíð

VERA – Samsýning Christine Gísla, Jónu Þorvaldsdóttur og Katrín Gísladóttir/Katra á ljósmyndum og keramikskúlptúrum í Gallery Grásteini, Skólavörðustíg 4, Reykjavík.

Fimmtudaginn 4.febrúar kl.16.00 opna listakonurnar Christine Gísla, Jóna Þorvaldsdóttir og Katrín Gísladóttir/Katra sýninguna VERA í Gallery Grásteini, á Skólavörðustíg 4, sýningin er staðsett á efri hæð Gallery Grásteins. VERA er á dagskrá Vetrarhátíðar sem hefst 4.febrúar. Á sýningunni sýna þær Christine, Jóna og Katra ljósmyndir og keramikskúlptúra sem eru afrakstur átta mánaða samvinnu þar sem fléttast saman hugleiðingar um tilveruna, líðandi stund og til-veruna í kringum okkur. Allar vinna þær með abstrakt form, hver á sínum forsendum, svo úr verður skemmtileg samsetning ljósmynda og þrívíðra verka.

Sýningin VERA er hluti af Vetrarhátíð – Winter Lights Festival 2021 og verður opin alla daga frá 4. febrúar til 28. febrúar á opnunartíma Gallery Grásteins. 


 

Um listakonurnar þrjár

Christine Gísla útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í Reykjavík árið 2014 og hefur einnig notið leiðsagnar hjá þekktum ljósmyndurum á borð við Elinu Brotherus, Elizabeth Opalenik, Neal Rantoul, Jeniu Fridlyand, Daniel Reuter og David W. Lewis. Hún hefur haldið einkasýningar og samsýningar á ljósmyndum sínum og selt þær víða um lönd, meðal annars til Japan, Kanada og Bandaríkjanna.

www.christinegisla.com

Jóna Þorvaldsdóttir lærði ljósmyndun hjá Marian Schmidt og Izabela Jaroszewska í Ljósmyndaskólanum í Varsjá í Póllandi. Hún hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Póllandi og í Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölmörgum vinnustofum hérlendis og erlendis og staðið sjálf að vinnustofum með David W. Lewis í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Elizabeth Opalenik í samvinnu við BÆ listasetur á Höfðaströnd. Ljósmyndir hennar eru m.a. í eigu Ljósmyndasafns Íslands og Hafnarborgar.

www.jonath.is

Katrín Gísladóttir (Katra) hefur verið að vinna í leir frá árinu 1994 en vinnur einnig með gler, járn og hrosshár sem hún tvinnar saman í einstök verk. Hún hefur sótt fjölda myndlistarnámskeiða og lokið nokkrum önnum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þáttaskil urðu árið 2007 þegar hún sótti námskeið í rakú-brennslu í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Katra hefur tekið þátt í samsýningum, m.a. í Listasafni Árnesinga, og vinnur nú í teymi Art67 á Laugarvegi þar sem verkin hennar eru til sölu.

www.katra.is

Spennandi sýning sem vert er að kíkja á en sýningin stendur til 28.febrúar.


Verk á sýningunni eftir Christine Gísla

Verk eftir Jónu Þorvalds á sýningnni

Katrín Gísladóttir (Katra) vinnur verk sín í leir.

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Uppáhalds jogginggallarnir eftir íslenska hönnuði

Það er fátt sem er meira heillandi en þæginlegur og fallegur fatnaður. Sú staðreynd að fallegir og vel hannaðir jogginggallar hafa verið að tröllríða tískuheiminum um þessar mundir er einstaklega ánægjuleg staðreynd, að margra mati, þar á meðal undirritaðar. Að klæðast fallegum jogginggalla þykir alls ekki vera “understatement” því að vera í smart jogging fötum við háa hæla og fínan frakka þykir alveg einstaklega elegant. Svo er ekki síður töff að vera í flottum grófum götuskóm við eða bara skottast um á stigaskónum!

Innlit tók saman uppáhalds jogging-dressin sín eftir íslenska hönnuði. Einstaklega smart dress öll sem eitt og hér látum við fylgja nokkrar staðreyndir um merkin og hönnuðina á bak við þau.

Hver: Bára Hólmgeirsdóttir er hönnuðurinn á bak við Aftur. Bára hefur ávallt verið langt á undan sinni samtíð þegar kemur að sjálfbærni, endurnýtingu og umhverfismálum.

Hvar: Aftur er staðsett við Laugaveg 45 í 101 Reykjavík.

Stefna: Aftur var stofnað árið 1999 og hefur allt frá byrjun hannað fatnað út frá endurunnum fatnaði. Það sem einkennir Aftur er sjálfbærni, umhverfisvitund og virðing fyrir náttúru og dýrum. Bára hlaut viðurkenninguna Eldhugi í umhverfismálum árið 2020 á vegum Reykjavíkurborgar.

Hver: Heba Björg Hallgrímsdóttir er hönnuðurinn á bak við Absence of color, eða AOC. Heba byrjaði ung í tískubransanum og hefur verið viðlogandi hann síðan hún var 17 ára. Hún ákvað árið 2013 að opna AOC. 2014 uppgvötaði Topshop merki hennar á ASOS Marketplace sem er showroom fyrir lítil sjálfstæð merki og síðan þá hefur fyrirtæki hennar farið ört vaxandi.

Hvar: AOC er staðsett í London og er með eigin verslanir í Bretlandi og í New York. Vörur AOC eru seldar í 20 verslunum í Mið-Austurlöndum sem og minni sjálfstæðum verslunum víðsvegar um Evrópu. Vörur AOC er einnig að finna í vefverslunum Topshop og Nordstrom.com 

Stefna: Tímalaus hönnun sem er mínímalísk. 

Hver: Hönnuður Katla er Áslaug Magnúsdóttir viðskiptakona og frumkvöðull. Áslaug var fyrsta kona Íslands til að útskrifast með MBA frá viðskiptadeild Harvard háskólans og hefur einnig getið af sér gott orð í heimi lúxusenda fatatískunnar í Bandaríkjunum.

Hvar: Áslaug Magnúsdóttir hefur verið búsett og starfandi í Bandaríkjunum í mörg ár og er lína hennar Katla framleidd þar ytra.

Stefna: REDUCE – REUSE – RECYCLE. Umhverfisvæn stefna í framleiðsluferli, lífræn og náttúruleg efni notuð í flíkur. Bjóða uppá tímalausa hönnun og hágæða vörur og þjónustu. Þau bjóða einnig viðskiptavinum sínum upp á að senda þeim tilbaka flíkur sem þeir hættir eru að nota þeim að kostnaðarlausu og bjóða inneign upp í næstu kaup.


Aníta Briem leikkona tekur sig vel út í hönnun KATLA. Töff joggari og skæsuleg taska með, er flott samsetning.

AOC gallarnir eru mjög “reffilegir” og flottir við CONVERSE sem og háa hæla.

Aftur stendur ávallt fyrir sínu, grófir Dr.Marteins eru alveg málið í vetur.

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

Júlía greip tækifærið í kóvid og opnaði MUTT

MUTT er nýtt gallerí sem opnaði á Laugarveginum í desember síðastliðinn og er rekið af Júlíu Marinósdóttur. Júlía er menntuð í Listfræði frá Háskóla Íslands og tók síðan Master í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Júlía segist ekki vera listakona sjálf en hefur þó verið viðloðandi listum og áður en hún réðst í það að opna sitt eigið gallerí starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Listasafni Íslands.

“Fyrsta sýning MUTT var vídeóinnsetningin Hugvarp eftir Harald Karlsson og fór upp í desember. Það var gluggasýning í skammdeginu en þann 15. janúar opnaði ég dyrnar með sýningu Úlfs Karlssonar, 2+2=5,” segir Júlía. Sýningin hefur fengið góð viðbrögð síðan hún fór af stað enda er Úlfur öflugur listamaður og boðberi ákveðinnar kynslóðar.” 

Hvers vegna þessi tímasetning?

“Fyrir mér er þetta rétti tíminn til að fara út í atvinnurekstur en ég hef alltaf vitað að það ætti vel við mig. Ég á tvö börn sem eru 16 og 24 ára og hef góðan tíma núna til að einbeita mér að þessu verkefni, sem má segja er pínulítið barnið mitt, segir Júlía og brosir. Ég hef verið spurð út í þessa tímasetningu, út af kóvid, en fyrir utan að vera svolítið hvatvís, finnst mér einmitt rétti tíminn að grípa tækifærin þegar það er niðursveifla því ég lít á það sem tímabundið ástand og þá er gott að vera komin af stað þegar allt fer á fullt” segir Júlía sannfærandi.

Ögrandi listform heillandi

Júlía er spurð hvort hún eigi sér uppáhalds listamann. “Það er erfitt að sigta út einn sem uppáhalds, íslenskan eða erlendan. Þeir eru margir sem standa upp úr en list sem ögrar viðteknum venjum, áliti eða hugsun hefur alltaf heillað mig. Margar liststefnur sem brutust fram gerðu einmitt það, þær komu sem andstaða við fyrri stefnu og buðu upp á nýja hugsun, nýja nálgun. Ég held að fólk laðist að verkum hjá ákveðnum listamönnum af því það finnur samhljóm hvort sem hann er fagurfræðilegur, tilfinningalegur eða andlegur. Verkin tala til manns á ákveðinn hátt sem er ekki hægt að útskýra, segir Júlía.

“Fyrir mér verða þau að fela í sér sannleik, sem er kannski ekki sá sami hjá öðrum en hann tengist þessum samhljómi. Stundum er það svona aha! móment og stundum er það tenging við eitthvað hið innra en það hefur alltaf einhverja persónulega þýðingu”

Alþýðugallerí með nafn sem vísar í skemmtilega sögu

“MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917. Hann sendi inn klósettskál snúið á hlið áritað R. Mutt undir dulnefni til Sambands Sjálfstæðra Listamanna sem hann tók þátt í að stofna og nefndi verkið Gosbrunnur (Fountain). Sambandið hafði bundið sig til að samþykkja allar umsóknir meðlima svo þetta hristi almennilega upp í öllum og nýtt samtal um skilgreiningu á list varð til. Út frá þessu spruttu upp stefnur sem mótuðu síðan list 20. aldar. Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtileg og markverð saga en þetta var örútgáfan af henni og nafnið sem úr ensku þýðir blendings hundur og vitleysingur finnst mér líka passa vel inn í þá mynd að MUTT er alþýðulegt og þykist ekki vera eitthvað,” segir Júlía.

Sýningarstefna sem felur í sér fjölbreytni

“Sýningarstefnan tekur mið af því að opna sýningar með listamönnum sem vinna í mismunandi miðlum og þannig styðja við fjölbreytni í sýningarhaldi. Áhersla er lögð á að ná að sýna það sem er áhugavert og á erindi í samtímann hverju sinni. Framundan eru spennandi tímar, árið er að raðast saman og næst verður sýning á verkum eftir listakonuna Shu Yi sem vinnur með tímann og augnablikið í verkum sínum. Sýningin opnar 26. febrúar 2021” segir Júlía að lokum.

Hér fyrir neðan er að finna linka inná samfélagsmiðla MUTT gallerí.


Nú stendur yfir sýning á verkum Úlfs Karlssonar, 2+2=5.

Júlía Marinósdóttir eigandi MUTT gallerís.

Úlfur Karlsson 2+2=5

MUTT á nokkrar tengingar en nafnið er fyrst og fremst vísun í franska listamanninn Marcel Duchamp sem bjó til svo vitað sé fyrsta listaverkið úr nytjahlut árið 1917 sem var svokallað readymade verk.

muttgalleri.is

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur, skemmtileg samsýning þriggja listakvenna

Jarðsögur er samsýning þriggja litstakvenna, þeirra Auðar Vésteinsdóttur, Elísabetar Haraldsdóttur og Sigríðar Ágústsdóttur opnaði í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 21. janúar.

Listakonurnar eiga það sameiginlegt að nýta sér miðla handverks og nytjalistar við sköpun einstakra listaverka með aðferðum leirlistar og listvefnaðar. Allar eiga þær að baki langan listferil og búa yfir áralangri reynslu og þekkingu á efniviðnum og möguleikum hans. Listakonurnar segja sögur með náttúrulegum efnivið eins og ull, hör, jarðleir og postulíni, sem hefur vísun í jörð, náttúru og landslag. Líkt og í náttúrunni geta óvæntir hlutir gerst í vinnuferlinu og útkoman er ekki alltaf fyrirséð. Fyrirbæri náttúrunnar samlagast efninu í myndvefnaði Auðar og leirverkum Elísabetar og Sigríðar þar til fullkomið samband næst milli hugar og handar segir í texta á viðburði sýningarinnar á Facebook.

Sýningarstjóri sýningunnar er Aðalheiður Valgeirsdóttir, sem hafði þetta að segja þegar Innlit hafði samband við hana.

“Listkonurnar leituðu til mín fyrir nokkrum mánuðum og báðu mig að taka að mér sýningarstjórn sem mér leist strax vel á enda þekkti ég nokkuð vel verkin þeirra. Sjálf er ég myndlistarmaður og listfræðingur. Ég vildi strax tengja sýninguna við jörð og náttúru og þannig kom nafnið Jarðsögur til. Þær vinna allar með náttúruleg efni og viðfangsefnið hefur beina tengingu við náttúru og landslag. Við uppsetningu sýningarinnar legg ég áherslu á að verkin njóti sín vel í salnum og að það sé jafnvægi innbirðis. Verkin ganga mjög vel saman þó þau séu ólík. Mér finnst mikilvægt að sýna fjölbreytta list og sýning eins og þessi vekur vonandi athygli á þessum gömlu miðlum listvefnaði og leirlist. Allar eiga listakonurnar að baki langan listferil og búa yfir mikilli þekkingu á möguleikum miðilanna.”

Sýningin stendur yfir til 13.febrúar næst komandi og er staðsett í Gallerí Gróttu, allar upplýsingar er að finna á Facebook link hér fyrir neðan.

 


 

Verk Elísarbetu Haraldsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Verk eftir Sigríði Ágústsdóttur leirlistarkonu á sýningunni.

Á sýningunni eru listaverk með aðferðum leirlistar og listvefnaðar.

Listakonurnar þrjár, Auður Vésteinsdóttir, Elísabet Haraldsdóttir og Sigriður Ágústsdóttir.

Verk Auðar Vésteinsdóttur sem unnin eru með aðferðum listvefnaðar.